spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÖnnur ótímabær kraftröðun fyrir Dominos deild karla

Önnur ótímabær kraftröðun fyrir Dominos deild karla

Mánaðarlega mun Karfan birta kraftröðun á komandi tímabili. Þar er ekki aðeins tekin til staða liðanna í deildinni, heldur einnig breytingar á leikmannahópum og það gengi, eða sú sveifla sem liðið er í á hverri stundu.

Fyrsta kraftröðun tímabilsins var gerð í endaðan júlí, því alveg kominn tími á nýja. Þar er rýnt í stöðu liðanna á þessu tímabili og reynt að spá fyrir um möguleika þeirra. Tekið skal fram að röðunin er til gamans gerð enda ekki allt vatn runnið til sjávar og því líklegt að röðin muni sveiflast mikið í næstu kraftröðun.

Samkvæmt þessari samantekt og þeim stigum sem liðin fengu má gera ráð fyrir þrískiptri deild í ár. Þar sem að Tindastóll og Stjarnan verða nær örugglega við toppinn. Í sætum þrjú til sjö verða svo Njarðvík, Grindavík, Keflavík, KR og ÍR. Nokkuð er svo frá þeim og í neðsta hluta deildarinnar, þar sem Haukar, Valur, Skallagrímur, Þór og Breiðablik eru.

Örvarnar merkja færslu liða á milli mánaða.

Hérna er hægt að hlusta á Podcast Körfunnar ræða bæði hvernig staðið er að þessu, sem og ástæður stöðu liðanna.

Hérna er hægt að skoða lista yfir allar leikmannahreyfingar liðanna fyrir tímabilið.

 

 

#1: Stjarnan

Það kemur kannski ekkert sérstaklega á óvart að lið silfurskeiðunga Stjörnunnar sé efst í þessari ótímabæru kraftröðun okkar. Nýr þjálfari liðsins, Arnar Guðjónsson hefur heldur betur bætt við liðið en til Stjörnunnar eru komnir til að mynda þeir Ægir Þór Steinarsson, Paul Anthony Jones III og Antti Kanervo. En það er ekki allt heldur er mikil breidd í liðinu. Hlynur Bæringsson, Collin Pryor og Tómas Þórður Hilmarsson eru ennþá á sínum stað.

Liðið tapar sínum byrjunarliðsleikstjórnanda en Róbert Sigurðsson sneri aftur til Fjölnis, það er þó ekki á neinn hallað þegar sagt er að Ægir sé talsverð uppfærsla.

Breyting: Upp um eitt sæti

 

#2: Tindastóll

 

Kaupfélagsmenn frá Sauðárkróki hafa styrkt liðið með feitum bitum að sunnan. Þeim Urald King, Brynjari Þór Björnssyni, Dino Butorac og nýbakaða landsliðsmanninum Danero Thomas. Frá hverfur Sigtryggur Arnar sem heldur á suðlægari slóðir ásamt Björgvini Ríkharðssyni.

Þá bárust þær fréttir nýlega að Axel Kárason, lykilmaður og heimamaður verður ekki með í vetur. Blóðtaka þar og það verður áhugavert hvernig Israel Martin raðar upp sínum mönnum. Eitt er ljóst að það verða gerðar kröfur í Skagafirðinum.

Breyting: Niður um eitt sæti

 

#3: Njarðvík

Njarðvíkingar bömpa sjálfum sér upp í 3. Sæti. Grænliðar hafa haft sig mikið í frammi á leikmannamarkaðnum og hafa sótt sér leikmenn um tvítugt eins og Jón Sverrison, og menn um fertugt eins og Jeb Ivey; og allt þar á milli. Ólafur Helgi Jónsson, Gerald Robinson og Mario Marasevic eru líka mættir ásamt þjálfarnum Einari Árna, sem tekur (aftur) við keflinu í Ljónagryfjunni. Þeir missa Ragnar Nat, Vilhjálm Theódór og Odd Kristjánsson.

Það er erfitt að lesa í þetta en eitt er víst að með menn eins og Loga Gunnarsson í liðinu þá verður allavega tekið á því á æfingum.

Breyting: Upp um þrjú sæti

 

#4: Keflavík

Það verður virlkilega spennandi að fylgjast með bakvarðaparinu Gunnari Ólafssyni og Herði Axel Vilhjálmssyni. Bættu svo Guðmundi Jóns og Reggie Dupree við þetta og það verður ekki leiðinlegt að sjá þessa stráka spila vörn.

Nokkrir ungir strákar hverfa á braut en liðið bætir við sig manninum með strákslega nafnið, Georgi Boyanov ásamt Milton Jennings. Mikill sprengikraftur í Keflavíkurliðinu og það verður gaman að sjá þá í vetur.

Breyting: Niður um eitt sæti

 

#5: KR

 

Fyrir utan Emil Barja, nokkra unga stráka og erlendu leikmennina tvo, þá Dino Sticic og Julian Boyd; Hver ætlar að vera í KR?

Eru þeir kjötbræður, Jón Arnór og Pavel Ermolinskij hættir í körfubolta eða eru þeir bara í smávægilegum dvala? Því að þetta er atriði sem getur annað hvort gert KR að titilbaráttuliði og hins vegar sett þá jafnvel út úr úrslitakeppninni. Eitt er víst að það er verðugt verkefni framundan fyrir Inga Þór þjálfara, sem er floginn heim úr hólminum.

Breyting: Niður um eitt sæti

 

#6: ÍR

Byrjum á því mikilvægasta. Sveinbjörn Claessen er hættur í körfu sem er gríðarleg blóðtaka fyrir ÍR-inga. Þá eru Danero Thomas og Kristinn Marínósson farnir sem og Ryan Taylor. Mikill missir af þessum mönnum.

Fyrir stuðningsmen ÍR er þó eitthvað til þess að hlakka til. Matthías Sigurðarson er ennþá í liðinu og Borce er ennþá að þjálfa. Það er nóg til þess að vinna marga sigra, þá eru ungu strákarnir orðnir fullorðnir og verða að vera tilbúnir í að stækka ennþá meira sinn prófíl innan liðsins. Það er komið að þeim. Sigurður Þorsteinsson er kominn frá Grindavík og það mun hjálpa liðinu á báðum endum vallarins.

Breyting: Niður um eitt sæti

 

#7: Grindavík

Grindavík missir sinn aðal leikstjórnanda, Dag Kár Jónsson og miðherjann Sigurð Þorsteinsson. Það er þó ekki þannig að útgerðamenn Grindavíkur deyji ráðalausir.

Þeir sóttu Sigtrygg Arnar norður í land, Terrell Vinson úr Njarðvík og tvo aðra erlenda leikmenn, þá Michalis Liapism og Jordy Kuiper. Sterkir póstar í liðinu eins og Ólafur Ólafsson halda áfram og vonandi heldur þjálfarinn, Jóhann Ólafsson áfram að gera áhugaverða hluti. Þetta verður þó enginn dans á rósum hjá þeim í vetur.

Breyting: Engin

 

#8: Haukar

 Haukar eru lið sem er troðfullt af landsliðsmönnum. Haukur Óskars, Hjálmar Stef og Kristján Leifur verða allir áfram sem er frábært fyrir liðið. Kristinn Marínósson snýr aftur eftir erfitt ár hjá íR, Marques Oliver og Hilmar Henningsson koma frá Akureyri  og Matic Macek kemur frá Slóveníu.

Það er samt ástæða fyrir því að við setjum þá svona neðarlega. Þeirra langbesti leikmaður, Kári Jónsson er farinn til Barcelona, Emil Barja farinn í KR og Finnur Atli fór alla leið til Ungverjalands. Ég veit að Finni líður best langt frá hringnum en er þetta ekki fullmikið af því góða?

Ívar á ærið verkefni fyrir höndum.

Breyting: Engin

 

#9: Valur

Valsmönnum tókst eftir síðasta tímabil að halda sæti sínu í efstu deild. Nokkuð sem Valsarar hafi ekki getað sagt lengi, þeir misstu þó sinn besta leikmann í Urald King.

Þeir bæta Oddi Kristjánssyni við liðið í leikstjórnandastöðuna sem var veikleiki stóran hluta síðasta tímabils og fá Ragnar Nat til þess að manna teiginn. Ágúst Björgvinsson er svo þrautreyndur þjálfari sem fær liðin sín alltaf til þess að berjast til síðasta blóðdropa. Mögulegt úrslitakeppnissæti fyrir Hlíðarendapilta?

Breyting: Engin

 

#10: Skallagrímur

Nýliðar Skallagríms falla hér í 10. Sæti og falla þess vegna ekki. Gamla brýnið Darrell Flake ákvað að taka ekki slaginn í efstu deild og mættur í Hólminn – sem heillar.

Borgnesingar nældu sér í bræðurnar Björgvin Hafþór og Bergþór Ægi Ríkharðssyni sem munu vafalaust hjálpa þeim í vetur. Það verður spennandi að sjá hvernig liðið ætlar sér að spila, en það verður mest spennandi að fylgjast með nýjum erlendum leikmanni liðsins, Aundre Jackson, sem spilaði með Loyola-Chicago háskólanum í fyrra sem fór alla leið í undanúrslit NCAA mótsins.

Breyting: Upp um eitt sæti

 

#11: Þór

 Þórsarar frá þorlákshöfn virðast vera í talsverðum vandræðum. Þeir missa þjálfarann sinn til Njarðvíkur, Ólaf Helga til Njarðvíkur, Snorra Hrafnkells í Breiðablik og stemmningin fyrir liðinu hljómar fyrirfam ekkert sérstaklega vel.

Þetta gæti þó breyst hratt ef Græni Drekinn ákveður að rífa sig í gang snemma tímabils. Þá væri mikilvægt ef erlendu leikmennirnir Tomsick og Matulis sem koma frá Króatíu og Litháen sýndu góða hluti.

Breyting: Niður um eitt sæti

 

#12: Breiðablik

 

Nýliðar Breiðabliks eru neðstir hér í þessari kraftröðun. Liðið kemur auðvitað beint upp úr 1. deild og hefur bætt við sig mikið af leikmönnum, til að mynda er Þorsteinn Finnbogason mættur, sem og Snorri Hrafnkellsson. Margir þessara leikmanna eru þó svokallaðir rulluspilarar og hreyfa nálina ekkert alltof mikið svona við fyrstu sín. Vonandi fyrir þá mun nýr þjálfari liðsins, Pétur Ingvarsson finna góða blöndu af yngri og eldri leikmönnum en það gæti orðið erfitt fyrir Pétur að finna sitt besta byrjunarlið.

 

Breyting: Engin

Fréttir
- Auglýsing -