Í gærkvöldi bárust töluverðar fregnir að norðan þar sem Konrad Tota var kynntur til leiks sem spilandi þjálfari Akureyringa á næstu leiktíð og þá var Sigurður Grétar Sigurðsson ráðinn aðstoðarþjálfari Tota. Karfan.is tók púlsinn á Sigurði sem sagði körfuboltann eiga á brattann að sækja á Akureyri og að nú þyrftu menn að spýta í lófana.
,,Sumarið hefur verið þannig hjá okkur að menn hafa hist tvisvar í viku og spilað saman bolta, svo hafa menn verið að æfa/lyfta á eigin vegum.Við erum svona í seinni kantinum að byrja að æfa þetta árið þar sem þjálfari var ekki ráðinn fyrr en seint en það verður byrjað að æfa skipulega í byrjun ágúst,leikmenn teknir í ástandstjékk og ráðstafanir gerðar til að bæta þá hluti sem bæta þarf hjá hverjum og einum, vonandi koma nátturulega allir í toppformi til leiks í ágúst þó ég stórefi það,” sagði Sigurður í léttum tón en þjálfarinn Tota er væntanlegur í byrjun septembermánaðar.
,,Þá verða væntanlega línurnar lagðar um hvernig bolta liðið mun einbeita sér að því að reyna að spila næsta vetur og hann byrjar að troða sínum áherslum í hausinn á mönnum. Breytingar eru einhverjar, helst þær að við endurheimtum litla loðfílinn hann Ólaf Torfasson eftir nám í Bandaríkjunum, Konrad Tota bætist svo nátturulega við leikmannahópinn.Wesley Hsu kemur aftur og þá með sömu formerkmum og í fyrra, hann þiggur engin laun frá Þór sem leikmaður,” sagði Sigurður sem er þó óviss með framhaldið hjá köppunum úr Keflavík.
,,Ég veit hreinlega ekki hvernig verður með snillingana tvo frá Keflavík sem spiluðu hér í fyrra þá Elvar og Palla. Vonandi sjáum við þá aftur þó það væri ekki nema annan þeirra hér. Hugsjónin um að byggja upp á heimamönnum og eingöngu Þórsurum eins og margir vilja er afar falleg en við þurfum þá að eiga þessa heimamenn til og þó það séu góðir leikmenn til hér og ungir strákar að koma upp þá þarf meira til og því var farið þá leið að ráða spilandi þjálfara og Wesley kemur aftur. Ég spila ekki en að öðru leyti veit ég ekki um fleiri sem fara en við erum þó eins og ég sagði ekki komnir almennilega af stað og því mögulegt að breytingar verði,” sagði Sigurður en hvað með einn sterkasta leikmann Þórsara um árabil?
,,Við reynum væntanlega að lokka Óðinn Ásgeirsson í eitt tímabil í viðbót, veit svosem ekki hvernig það tekst til,” sagði Sigurður en Óðinn tók fram skónna á nýjan leik á miðju síðasta tímabili. ,,Það eru ekki komin nein ákveðin markmið í hús enn sem komið er en mín tilfinning er fín sem endranær gagnvart nýjum vetri. Karfan á svolítið á brattann að sækja hér á Akureyri, aðrar íþróttir hafa meiri meðbyr hér en við þurfum að berja okkur á brjóst og láta vita af okkur og besta leiðin til þess er að njóta velgengni inni á vellinum og að því stefnum við. Ég tel án þess þó að vita endanlegt lið að hópurinn sé sterkari en í fyrra og menn þurfi að taka Þór Akureyri alvarlega í vetur.”
Ljósmynd/ Óðinn Ásgeirsson tók fram skónna á nýjan leik á miðju síðasta tímabili. Tekst Þórsurum að rífa úr honum eitt tímabil til viðbótar?