David Stern og félagar í NBA deildinni hafa opnað nýjar skrifstofur í Moskvu, höfuðborg Rússlands. Þessi gjörningur ku vera til þess fallinn að færa NBA nær ört vaxandi aðdáendahópi deildarinnar í Rússlandi og Austur-Evrópu.
Billjarðamæringurinn Mikahil Prokhorov, eigandi New Jersey Nets, hefur lagt blessu sína yfir þetta nýjasta útspil NBA deildarinnar og sagði það vel til þess fallið að skapa fleiri tækifæri fyrir drengi og stúlkur í Rússlandi til að gerast virkir körfuknattleiksiðkendur.
Nýja skrifstofan er ekki sú eina í Evrópu því NBA deildin hefur áður komið á laggirnar skrifstofum í London, Madríd, Mílan og París en alls eru þær 16 talsins utan Bandaríkjanna.
Seint á síðasta ári færði Karfan.is fréttir af því þegar David Stern, framkvæmdastjóri NBA deildarinnar, sagði að mögulegt væri að lið frá Evrópu eða annarri heimsálfu gæti komið inn í NBA deildina ef þróun leikvanga yrði samkvæmt stöðlum NBA. Með allar þessar skrifstofur NBA deildarinnar um víða veröld er því óhætt að áætla að heimsvaldastefnu Stern sé hvergi nærri lokið, síður en svo.