Körfuknattleiksdeild Vals hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar Körfunnar um möguleg vistaskipti landsliðsmannsins Kristófers Acox. Hér að neðan má sjá yfirlýsinguna í heild sinni:
Vegna greinar á karfan.is, 3. september 2020, undir yfirskriftinni “Kristófer Acox í Hlíðarnar? – Óánægja með framgöngu Valsmanna”, telur körfuknattleiksdeild Vals nauðsynlegt að senda frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.
Það kemur okkur Valsmönnum spánskt fyrir sjónir að lesa þessi skrif þar sem vísað er frjálslega í nafnlausa heimildarmenn. Við viljum benda greinarhöfundi á að heppilegt getur verið að hafa samband við aðilann sem fjallað er um í svona tilvikum. Eins og upphafsmaður ritunar Íslandssögunnar ráðlagði í sinni tíð „hafa það heldur, er sannara reynist“.
Við höfnum alfarið þessum ásökunum þar sem fullyrt er að Valur sé í reglulegum samskiptum við samningsbundna leikmenn. Það er þvæla og því vísað aftur til föðurhúsanna.
Körfuknattleiksdeild Vals hefur sýnt ráðdeild í rekstri á liðnum árum og lagt mikið kapp og vinnu í uppbyggingu deildarinnar, sú vinna mun halda áfram. Við munum ekki leggjast svo lágt að svara þessari grein frekar efnislega.
Það getur verið vandasamt fyrir fjölmiðla og félög að fóta sig í því ástandi sem nú ríkir, hraðinn er mikill og aðgengi að fjölmiðlum og netheimum auðveldur. Við viljum hvetja alla aðila að stíga varlega til jarðar, spara upphrópanir og gífuryrði og einbeitar sér að uppbyggingu körfuknattleiks á Íslandi.
Körfuknattleiksdeild Vals harmar þessi skrif og kallar eftir vandaðri frásögn frá fagfjölmiðli körfuboltans, karfan.is. Að lokum gerum við orð Sr. Friðriks að okkar: Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði.
KKD Vals