Samkvæmt heimildum mbl.is munu dómarar leiks KFG og Breiðabliks í fyrstu deild karla síðustu helgi hafa lagt inn kæru vegna rasískra ummæla. Myndbrot frá atvikinu má sjá hér, en á því má meðal annars heyra orðin ,,ert þú of skáeygður til að sjá þetta”.
KFG sendi nú í morgun frá sér yfirlýsingu. Hana má lesa hér fyrir neðan, en í henni harmar félagið umrætt atvik og fordæmir þá hegðun sem stuðningsmaður félagsins sýndi af sér við umrætt atvik.
Yfirlýsing:
Síðastliðinn laugardag mættust grannliðin KFG og Breiðablik í 1. deild karla í körfubolta. Leikurinn var hin besta skemmtun, mikill hraði og vel tekist á innan vallar.
Körfuknattleiksdeild KFG var stofnuð til að gefa ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri á að þroskast og reyna sig í krefjandi keppni, taka skrefið fram á við og ná íþróttalegum markmiðum sínum. Við sem förum fyrir félaginu gerum miklar kröfur til okkar leikmanna, þjálfara og þeirra sem að félaginu koma. Það er því gríðarleg vonbrigði fyrir okkur sem að félaginu koma að stuðningsmaður KFG skuli láta rasísk ummæli falla í garð dómara, og skyggi þannig á það mikilvæga starf sem fram fer innan félagsins.
Rasísku ummæli stuðningsmanns KFG hafa skyggt á umræðuna eftir leikinn og þá gleði sem fylgdi ágætis frammistöðu liðsins innan vallar. Aðdragandi þessara ummæla skiptir engu máli, enda verður að gera þá sjálfsögðu kröfu á stuðningsmenn íþróttaliða að sýna háttvísi í sinni framkomu. Það skal engum vafa undirorpið að KFG fordæmir þessa orðræðu. Við biðjum dómara leiksins, þá Federick Alfred U Capellan og Einar Val Gunnarsson afsökunar fyrir hönd félagsins.