spot_img
HomeFréttirWoodson rekinn frá Atlanta

Woodson rekinn frá Atlanta

Atlanta Hawks hafa ákveðið að láta þjálfara sinn Mike Woodson fara eftir sex ára starf. Liðið tók miklum framförum undir hans stjórn og fór í úrslitakeppnina þrjú síðustu árin, en frammistaðan gegn Milwaukee og Orlando á dögunum þótti ekki nógu góð.
 Woodson, sem var með lausan samning í sumar, kom til Atlanta þegar liðið var í mjög slæmum málum og vann aðeins 13 leiki á sínu fyrsta ári, en bætti smátt og smátt við sterkum leikmönnum bjó til lið sem vann 53 leiki og varð í þriðja sæti í Austurdeildinni í ár.
 
Frammistaðan í úrslitakeppninni olli hins vegar miklum vonbrigðum þar sem þeir rétt skriðu áfram gegn vængbrotnu liði Milwaukee og voru svo rótburstaðir gegn Orlando.
 
Strax þá voru farnar að heyrast raddir þess efnis að hann hafi farið eins langt með Hawks og hann gat og breytinga væri þörf ætli liðið að fara skrefinu lengra og berjast um meistaratitla.
 
Frekari breytingar gætu orðið á liðinu í sumar þar sem helsta stjarna liðsins, Joe Johnson, er með lausan samning og virtist orðinn þreyttur á dvölinni í Atlanta.
 
Þjálfarakapall NBA í sumar er því búinn að flækjast enn frekar, en Woodson er þegar orðaður við stöðuna hjá Philadelphia, á meðan Avery Johnson, Byron Scott, Tyrone Corbin og Doug Collins eru taldir líklegir til að taka við Atlanta.
Fréttir
- Auglýsing -