spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaWNBA leikmaður til Blika

WNBA leikmaður til Blika

Körfuknattleiksdeild Breiðabliks tilkynnti nú fyrir stundu að liðið hefði samið við Kelly Faris um að leika með liðinu á komandi keppnistímabili í Dominos deild kvenna.
 
Kelly Faris er 27 ára bakvörður sem er 180 sentimetrar á hæð. Hún lék í fjögur ár með hinu ógnarsterka háskólaliði UConn þar sem hún varð tvisvar sinnum meistari. Á lokaári sínu með UConn skilaði Kelly 10.2 stigum, 7.2 fráköstum og 3 stoðsendingum á tæpum 30 mínútum í leik.
 
Árið 2013 var Kelly valin númer 11 í WNBA nýliðavalinu og lék 24 leiki með Connecitcut Sun, þar sem hún skilaði 2 stigum og 2 fráköstum í leik. Síðan þá hefur Kelly leikið í efstu deildum í Ungverjalandi, Ástralíu og Ísrael. Að auki var hún í U18 landsliði Bandaríkjanna sem urðu heimsmeistarar árið 2008, segir á heimasíðu Breiðabliks.
 
Margrét Sturlaugsdóttir nýráðinn þjálfari Breiðabliks sagði eftirfarandi um komu Faris:  „Kelly Faris er reynslumikil og kemur úr topp prógrammi frá meistara Geno Auriemma úr UConn háskólanum. Búin að spila víða um heim eftir útskrift og daðraði við WNBA nokkur tímabil. Hún er vinnuþjarkur og kemur til með að koma inn með reynslu og vinnusemi til Blikastúlkna. Ég treysti á að hún stjórni hraða bæði á æfingum og í leikjum. Hlutverk Kelly verður fyrst og fremst að leiða ungt lið Blika, enda kemur hún eins og áður sagði með mikla reynslu og vinnusemi. Það er gríðarleg tilhlökkun að fá hana í annars flottan hóp ungra Blikastúlkna“
 

Blikar hafa verið drjúgir á leikmannamarkaðnum í sumar. Fyrir höfðu þær Björk Gunnarsdóttir,  Erna Freydís Traustadóttir, Huldu Ósk Bergsteinsdóttir, Ragnheiður Björk Einarsdóttir og Þórdís Jóna Kristjánsdóttir samið við liðið. Einnig samdi Bryndís Hanna Hreinsdóttir við liðið á dögunum en Margrét Sturlaugsdóttir er tekin við þjálfun liðsins.

 

Fréttir
- Auglýsing -