spot_img
HomeFréttirWizards unnu Cavs óvænt

Wizards unnu Cavs óvænt


06:42:05
Versta lið Austurstrandarinnar skellti því besta í nótt þegar Washington Wizards batt enda á 13 leikja sigurgöngu Cleveland Cavaliers með sigri, 109-101. Washington, sem er einungis sjónarmun á undan kjallaraliði Sacramento Kings, gat loks teflt fram sínum besta mannskap, en Gilbert Arenas og Brendan Haywood eru komnnir aftur eftir að hafa verið fjarverandi vegna meiðsla í allan vetur.

 

Sigur Wizards var nokkuð öruggur þar sem þeir leiddu nær allan leikinn. Cavs áttu að vísu góða rispu undir lok þriðja leikhluta og fram í þann fjórða þar sem þeir unnu upp 14 stiga forskot áður en Wizards tóku á rás að nýju. Merkilegt nok var LeBron James á bekknum þegar Cavs áttu sinn besta kafla. Hann skoraði 31 stig í leiknum, en var mistækur þar sem hann missti boltann oft.

 

Hjá Washington var Caron Butler stigahæstur með 25 stig og Antawn Jamison var með 19. Haywood og Arenas komu ágætlega inn, Haywood var með 12 stig og 10 fráköst á meðan Arenas var með 11 stig og 10 stoðsendingar.

 

Þessi úrslit breyta þó litlu varðandi stöðuna í Austurdeildinni þar sem Cleveland er langefst og Washington langneðst. Þetta gæti hins vegar gefið Lakers vind í seglin til að komast upp fyrir Cavs í keppninni um besta árangurinn í NBA og heimaleikjaréttinn í úrslitunum ef til þess kæmi.

 

Á meðan var Philadelphia 76ers að vinna sig upp í 5. sætið í austrinu með góðum sigri á Milwaukee Bucks, 105-95. Þeir unnu upp forskot Bucks úr fyrri hálfleik með því að skella í lás í vörninni og uppskáru þægilegan sigur.

 

Hinn ungi Louis Williams var með 21 stig fyrir 76ers og Andre Iguodala var með 20. Hjá Bucks             var Ramon Sessions með 18 stig og 10 stoðsendingar.

 

Í vesturdeildinni heldur áfram æsispennandi keppni um heimaleikjarétt í úrslitakeppninni þar sem nánast öll liðin í öðru til áttunda sæti geta haft sætaskipti áður en yfir lýkur. Í nótt vann Denver sigur á Utah, 114-104, og komust þar með upp í annað sætið í vestrinu.

 

JR Smith var maðurinn á bak við góðan kafla hjá Denver í fyrri hálfleik þar sem þeir sneru leiknum sér í hag og héldu frumkvæðinu allt til loka. Smith skoraði 28 stig af bekknum, þar af 8 3ja stiga körfur og Carmelo Anthony bætti við 23.

 

Hjá Utah var CJ Miles var með 19 stig, Deron Williams með 18 og 10 stoðsendingar, Carlos Boozer með 15 stig og 11 fráköst, Mehmet Okur með 14 stig og 15 fráköst, en skotnýting þeirra var það sem gerði útaf við þá.

 

Tölfræði leikjanna

 

Mynd/AFP

 

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -