Það var bara spurning hversu lengi Golden State Warriors ætluðu að taka þessu liggjandi. Steve Kerr, þjálfari Warriors gróf djúpt í verkfæraskúffuna og henti Andre Iguodala í byrjunarliðið og spilaði small-ball allan leikinn með David Lee hæsta leikmann liðsins í 206 cm. Þetta og töluverð meiri barátta í vörn skóp sigur fyrir Warriors og jafnaði seríuna í 2-2 með öruggum 103-82 sigri.
Það var ekkert leyndarmál að Kerr og Warriors voru komnir með bakið upp við vegginn. Kerr, sem lenti í öðru sæti yfir þjálfara ársins, var hreinlega að láta David Blatt rúlla yfir sig með taktískum skákleikjum í síðustu tveimur leikjum. Hann varð að gera eitthvað annað.
Hann byrjaði á að skrökva að fjölmiðlum um hvernig byrjunarliðið yrði. Hélt því utan umræðunnar að Iguodala væri í byrjunarliðinu og Draymond Green í miðherjanum. Hann fyrirskipaði tvídekkun á LeBron James, sem hafði fram að þessu fengið að gera það sem hann vildi nánast inni á vellinum. Að lokum virðist hann hafa náð að rífa sína menn í gang því allt annað Warriors lið mætti til leiks en við höfum fengið að sjá í fyrstu þremur leikjunum.
LeBron lenti í vandræðum með tvídekkunina, skaut aðeins 7/22 en það hefur ekki komið að sök hingað til því hann hefur skotið 36% sigurleikjum Cavs. Aðrir leikmenn voru bara ekki að stíga upp. Iman Shumpert skaut 2/9 og JR Smith 2/12 og betur má ef duga skal þegar besti maður liðsins er "tekinn úr umferð". LeBron skoraði samt 20 stig og tók 12 fráköst að 8 stoðsendingum viðbættum.
Cavs skutu eiginlega bara hræðilega í heildina. 33% utan af velli og 4/27 í þristum (14,8%).
Stephen Curry og Iguodala leiddu Warriors með 22 stig hvor en lítið fór fyrir Klay Thompson skoraði aðeins 9 stig. Timofey Mozgov átti mjög góðan leik fyrir Cavs með 28 stig og 10 fráköst. Minna fór fyrir öðrum.
"Aftur að teikniborðinu" sagði David Blatt en hann mun þurfa einhverjar töfralausnir ef þunnur bekkur Cavs og þreyta eru að koma aftan að þeim. Warriors geta ekki fagnað enn því þeir hafa rekið sig á það að andstæðingur þeirra er augljóslega mun betri en þeir héldu.