22:57
{mosimage}
(Jakob brýtur sér leið upp að körfu Georgíumanna)
Íslenska landsliðið vann í kvöld magnaðan 76-75 sigur á Georgíumönnum í Evrópukeppni B-þjóða. Jakob Örn Sigurðarson reyndist hetja íslenska liðsins er hann setti niður ótrúlega flautu þriggja stiga körfu sem tryggði Íslendingum sigurinn. Logi Gunnarsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 17 stig en hann gerði fyrstu 12 stig liðsins í leiknum í kvöld og var rjúkandi heitur. Jafnt var á með liðunum allan leikinn en allt benti til þess að gestirnir frá Georgíu myndu fara með sigur af hólmi þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka. Íslenska liðið sýndi af sér sterkan karakter á lokasekúndunum og var flautukörfu Jakobs fagnað vel og lengi í leikslok.
Fyrir leikinn í kvöld var miðherjinn Friðrik Erlendur Stefánsson heiðraður sérstaklega fyrir að leika 100 landsleiki með íslenska landsliðinu. Hann fékk gullúr og blómvönd við tækifærið en leikurinn í kvöld var hans 105. í röðinni.
Georgíumenn gerðu fyrstu stig leiksins en þá tók Logi Gunnarsson til sinna ráða og kom Íslandi í 10-6 með sterkum sprettum. Íslenska vörnin var þétt og var ekki feimin við að tvídekka NBA stjörnuna Zaza Pachulia sem skilaði miðherjastöðu hjá Georgíumönnum. Zaza var í strangri gæslu og gerði aðeins 4 stig í fyrri hálfleik. Gestirnir sáu við fínni byrjun hjá Loga og leiddu að loknum fyrsta leikhluta 18-23. Georgíumenn voru þolinmóðir í sóknaraðgerðum sínum og tóku yfirleitt vel valin skot og voru með mjög góða skotnýtingu.
{mosimage}
(Fannar í baráttunni gegn Zaza Pachulia)
Miðherjinn Fannar Ólafsson kom sterkur inn af bekknum og lét vel að sér kveða í 2. leikhluta og gaf hvergi eftir í baráttunni í teignum. Þá var Helgi Magnússon einnig drjúgur og íslenska liðið í heild að berjast vel. Páll Axel Vilbergsson kom verulega á óvart þar sem hann var helsti baráttuhundurinn í fráköstunum. Georgíumenn voru þó ávallt skrefinu á undan í 2. leikhluta en Brenton Birmingham kom íslenska liðinu í 36-33 með góðri þriggja stiga körfu en næstu fimm stig komu frá gestunum og staðan því 36-38 Georgíu í vil þegar flautað var til hálfleiks.
Logi Gunnarsson var funheitur í fyrri hálfleik og var með 16 stig þegar flautað var til leikhlés og þá var Páll Axel kominn með níu fráköst. Brynjar Björnsson kom inn á í 2. leikhluta og gerði sín fyrstu Evrópustig með íslenska landsliðinu en hann gerði sín fyrstu stig með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum í Mónakó fyrr í sumar.
Íslenska liðið byrjaði síðari hálfleikinn af krafti þar sem Páll Axel setti niður eina eldflaug og breytti stöðunni í 39-38 Íslandi í vil. Georgíumenn tóku eftir það völdin og komust upp með allt of mikið í varnarleik sínum og fengu ekki dæmda á sig villu í þriðja leikhluta fyrr en tæpar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum. Gestirnir komust í 41-50 og virtust vera að stinga af þegar íslenska liðið hrökk í gang. Ísland minnkaði muninn í 50-53 með þriggja stiga körfu frá Jakobi Erni en leikhlutanum lauk í stöðunni 52-55 Georgíu í vil.
{mosimage}
Nokkur óvarkárni hafði verið að blossa upp í leik íslenska liðsins og töpuðust óþarflega margir boltar á hættulegum stöðum sem gáfu gestunum auðveld stig. Íslendingar létu smáatriðin þó ekki há sér og voru alltaf inni í leiknum. Magnús Gunnarsson kom Íslendingum í 62-61 með góðri þriggja stiga körfu og þegar 3.20 mín voru til leiksloka breytti Brenton stöðunni í 70-68 með því að skora og fékk hann vítaskot að auki. Mikil spenna var í leiknum á þessum tímapunkti og skiptust liðin á forystunni.
Í stöðunni 72-74 Georgíu í vil voru 35 sekúndur til leiksloka þegar Íslendingar tóku leikhlé og héldu svo í sókn frá miðjum leikvellinum. Ísland tapaði boltanum upp í hendur Georgíumanna eftir ótrúlega rangan dóm þar sem Georgíumenn fengu innkast þegar 13 sekúndur voru eftir. Boltinn fór klárlega af leikmanni gestanna og þeim síðan dæmdur boltinn og gestirnir með pálmann í höndunum. Íslenska liðið braut strax og Zaza Pachulia hélt á línuna og gat gert út um leikinn. Honum tóks aðeins að skora úr einu vítaskoti og staðan því 72-75 þegar Ísland hélt í sókn og níu sekúndur eftir.
Tyrone Ellis braut á Loga Gunnarssyni og sendi hann á línuna þegar 5 sekúndur voru til leiksloka. Logi mátti ekki hitta úr báðum vítunum, hann setti það fyrra niður, 73-75, og brenndi viljandi af því síðara. Fannar Ólafsson stökk þá manna hæst í teignum, náði frákastinu og kom boltanum í átt að Loga, Logi kastaði sér á eftir boltanum og sendi á Jakob sem vippaði sér upp og setti þriggja stiga flautukörfu í spjaldið og þaðan beint í netið. 76-75 sigur Íslands í höfn og fagnaðarlætin létu ekki á sér standa í leikslok.
,,Þetta var eins sætt og það gat orðið, þegar ég sleppti boltanum þá vonaði ég og vissi ég að hann færi ofan í,” sagði Jakob Örn sigurreifur í leikslok. ,,Við töluðum um það að vera grimmari í dag í okkar sóknaraðgerðum heldur en í Finnaleiknum og láta Georgíumenn ekki ýta okkur út úr okkar sóknum. Við gerðum það vel í dag. Þetta var stór sigur fyrir körfuboltann því Georgíumenn eru með mjög sterkt lið. Mér leið mjög vel í leiknum, við spiluðum vel, börðumst vel og gáfumst aldrei upp,” sagði Jakob í leikslok en hann þverfótaði varla fyrir hamingjuóskum sem dundu yfr hann og liðsfélagana í leikslok.
Stigaskor Íslands:
Logi Gunnarsson 17
Jakob Örn Sigurðarson 16, 5 stoðsendingar
Brenton Birmingham 13, 11 fráköst
Páll Axel Vilbergsson 9, 15 fráköst
Magnús Gunnarsson 6
Fannar Ólafsson 6
Helgi Már Magnússon 4
Friðrik Stefánsson 3
Brynjar Björnsson 2
{mosimage}