Eins og við greindum frá í dag er Björn Kristjánsson búin að kveðja uppeldisklúbb sinn KR og mun spila með Njarðvíkingum á komandi tímabili. Þar hittir hann fyrir bróðir sinn Odd sem spilaði með Njarðvík á síðasta tímabili og sinn besta vin Hauk Helga Pálsson en einnig kvittaði undir áframhaldandi samning við félagið í gær.
"Þetta var ekki auðveld ákvörðun. Búinn að vera mjög ánægður í KR seinustu tvö ár. Helsta breytingin er að Njarðvík er að bjóða mér stærra hlutverk og það er einmitt það sem ég er að leita að núna. Það er auðvitað stór plús að spila með Hauki besta vini mínum og litla bróður." sagði Björn í samtali við Karfan.is í dag.
Björn reynist Njarðvíkingum oft erfiður biti að kyngja í úrslitakeppninni síðustu tvö ár og vonast nú stuðningsmenn liðsins að hann muni nýtast þeim jafnvel og hann reyndist liðinu erfiður. "Stuðningsmenn mega eiga von á því að ég geri mitt allra besta hverju sinni og ég mun ætíð sýna góðan liðsanda líkt og það sem hefur ríkt í Njarðvíkinni." sagði Björn að lokum.