Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflvíkinga svarar þeirri gagnrýni að Keflvíkingar séu komnir með þrjá erlenda leikmenn fullum hálsi og segir að Keflvíkingar ætli sér að vera í toppbaráttu og að hann vilji ekki að ungu leikmennirnir hans fari of hratt út í djúpu laugina. www.vf.is greinir frá.
„Þessi ákvörðun um að semja við Steven Gerard var tekin af því að við vorum ekki með neitt sérstaklega marga menn, nema bara unga stráka. Þó svo að einhver lið hafi stært sig af því að keyra á ungum mönnum þá viljum við meira en það. Arnar Freyr sem leikur í þessari stöðu hefur verið meiddur og hefur verið að spila töluvert þannig,“ segir Sigurður en fyrir skömmu sömdu Keflvíkingar við leikstjórnandann Steven Gerard sem lék með Keflvíkingum um stutta hríð árið 2008. „Við erum líka að nota Steven í þjálfun í unglingastarfinu og hann er ekki bara einhver leikmaður, þetta er fyrrum leikmaður okkar sem við þekkjum vel til. Það eru þess vegna nokkrar ástæður fyrir því að við náðum í hann, í fyrsta lagi er þetta góður leikmaður og auk þess misstum við bara það mikið af leikmönnum í fyrra. Þrátt fyrir að vera með þessa þrjá erlendu leikmenn þá erum við ekkert með sama lið og við höfum haft undanfarin ár.“
Mynd/ [email protected]