spot_img
HomeFréttirViðtal við Geof Kotila þjálfara Snæfells

Viðtal við Geof Kotila þjálfara Snæfells

14:55

{mosimage}

Nú í seinni tíð hefur lítil endurnýjun orðið á þjálfara flóru Iceland Expressdeildarinnar. Einn og einn nýr hefur þó læðst inn og örsjaldan koma útlendingar til þess eins að þjálfa á Íslandi. Í haust kom þó einn slíkur, Geof Kotila, sem þjálfaði hafði með góðum árangri í Danmörku í 10 ár réði sig til Snæfells.

 

Karfan.is setti sig í samband við kappann til að forvitnast um hann og hans skoðanir á íslenska boltanum.

 

Hver er Geof Kotila?

Ég fæddist í Georgia fylki í Bandaríkjunum, en er að mestu uppalinn í Michigan.  Ég er kvæntur Karen og við eigum dæturnar Karline (þriggja ára) og Anni (eins árs).  Ég hóf að þjálfa árið 1983 við gamla skólann minn, Michigan Tech, svo þetta er 24. árið mitt sem þjálfari, í þremur löndum.

 

Af hverju körfubolti?

Faðir minn þjálfaði í menntaskóla í 38 ár og var alltaf viðriðinn íþróttina.

 

Varstu sjálfur leikmaður?

Ó já, bæði í menntaskóla og háskóla.  Síðasta árið mitt í háskóla (’82) var síðasta árið sem leikið var án þriggja stiga línunnar!

 

Af hverju fórstu að þjálfa?

Í Bandaríkjunum, ólíkt Evrópu, er það þannig að þegar maður hefur lokið háskólaferlinum í körfubolta tekur “alvaran” við og maður fer út á vinnumarkaðinn.  Þegar mér bauðst tækifæri að fara að þjálfa stökk ég á það, því það virtist það eina rétta … fyrir utan að það var skemmtilegt!  Pabbi sagði alltaf við mig að þjálfun yrði aldrei ævistarf mitt, og ég held bara að ég sé á góðri leið með að afsanna það.

 {mosimage}  

Hvar hefurðu þjálfað?

Í Michigan Tech (2. deild NCAA) frá 1983 til 1994.  Þá tók ég við Horsens IC í Danmörku til ársins 2002 þegar ég fór til Bakken Bears þar sem ég var í fjögur ár.

 

Af hverju Ísland… og af hverju Snæfell?

Það var gott tækifæri fyrir mig að reyna mig í nýju landi … landi sem ég bar virðingu fyrir þar sem við höfðum leikið gegn Njarðvík og Keflavík þegar ég var hjá Bakken.  Snæfell var með gott orðspor og þessir flutningar virtust henta fjölskyldunni vel.  Eftir að ég fór í heimsókn í maí 2006 var ég mjög spenntur fyrir tilbreytingunni og þurfti bara að sannfæra konuna og börnin um að taka stökkið yfir á klakann.

 Fékkstu einhver ráð frá Flemming Stie?

Ja, ég ræddi auðvitað við Flemming um Ísland og hann var mjög jákvæður í garð sinnar reynslu héðan.  Það hjálpaði sannarlega hversu jákvæður hann var.

 

Hversu lengi ertu samningsbundinn Snæfelli?

Í tvö ár.

 

Felur samningurinn meira í sér en að þjálfa karlaliðið?

Ég vinn með félaginu að því að þjálfa upp þjálfara fyrir yngri flokkana.  Ég reyni að gefa þeim nýjar hugmyndir og benda þeim á ný sjónarhorn sem þeir geta nýtt sér, ekki einungis á sínum þjálfaraferli, heldur einnig til að byggja upp traust unglingastarf sem getur haldið félaginu uppi á komandi árum.

 

Hvernig líkar ykkur fjölskyldunni í Stykkishólmi?

Við höfum hægt og bítandi vanist lífinu hér á mjög jákvæðan hátt.  Að fara á milli menningarheima er alltaf áskorun en við erum mjög ánægð að vera hérna núna.  Okkur hefur verið tekið hlýlega í samfélaginu og öll erum við að búa til okkar eigin rútínu.  Best af öllu er sú staðreynd að við sem fjölskylda getum eytt mun meiri tíma saman nú en áður.  Það er stór bónus fyrir okkur og nokkuð sem við virkilega njótum.

 

Hvað vissir þú um íslenskan körfuknattleik áður en þú komst hingað?

Eins og ég minntist á þá hafði ég mætt Keflavík og Njarðvík, og þótti mikið til koma hve góðir leikmenn voru frá þessu litla landi.  Ég fékk á tilfinninguna að íslenskir leikmenn væru harðir í horn að taka og gætu flestir komið með leiftrandi skotsýningar!  Ég fór nærri!

 

Hver er munurinn á dönsku og íslensku deildinni?

1. Það er töluverður munur á efstu og neðstu liðunum í Danmörku.  Munurinn er alls ekki eins afgerandi á Íslandi.  Efstu liðin á Íslandi geta auðveldlega tapað hvenær sem er ef þau mæta ekki tilbúin til leiks. 

2.  Danir eiga mun fleiri hávaxna leikmenn en Íslendingar.  Íslendingar eiga hins mun fleiri frábærar skyttur en Danir. 

3. Það virðist vera meira “körfuboltamenning” á Íslandi.  Kannski er það vegna amerískra áhrifa, en í litla bænum okkar er litið á körfubolta sem aðalíþróttina og það er ekki hægt að segja á mörgum stöðum í Danmörku.

 

{mosimage}

 

Hvaða íslensku leikmenn hafa vakið mesta hrifningu hjá þér?

Þeir eru þó nokkrir sem mér dettur í hug … t.d. trúði ég varla mínum eigin augum þegar ég sá í fyrsta skipti Magnús [Þór Gunnarsson, Keflavík] taka skrefið yfir miðju og negla niður þriggja stig skot án þess að breyta skotinu sínu … og boltinn snerti ekkert nema netið!  En það eru margir íslenskir leikmenn sem eru ansi góðir, og mjög margir góðir ungir íslenskir leikmenn.  Ég hef séð Ísland vinna nokkur gullverðlaun á Norðurlandamótum í Solna í Svíþjóð og hef verið mjög hrifinn.

 

Hvað finnst þér um íslenska dómara (og jafnvel borið saman við danska)?

Ég held að dómgæsla hér sé að mestu leyti á háu stigi.  Ég get með sanni sagt að jafnvel þó ég hafi ekki byrjað á góðum nótum við einhverja þeirra, þá held ég að yfirhöfuð sé dómgæslan hér mjög góð og ég hef verið mjög sáttur við mína reynslu af þeim hingað til.  Það er hins vegar erfitt að bera þá saman við Danina því spilamennskan í löndunum er svo ólík.

 

Fylgdist þú með íslenska landsliðinu í haust?

Ég sá Ísland-Finnland í Laugardalshöllinni.  Íslendingar voru frábæri í fyrri hálfleik og áttu svo í erfiðleikum í þeim seinni þó svo leikurinn hafi ekki ráðist fyrr en undir lokin.

 

Hver er munurinn á því og danska landsliðinu?

Eins og ég nefndi hér fyrr þá eru Danirnir mun hærri.  Michael Dahl-Andersen, Chris Christoffersen, Mikkel Langager og nokkrir aðrir eru stórir menn sem hafa leikið í Evrópu í nokkur ár.  Þar að auki hafa Danir Christian Drejer, hann er mjög góður leikmaður.  Íslendingar eru á hinn bóginn mun betri skyttur ef á heildina er litið.  Þeir hafa vinninginn þegar litið er á getuna til að koma boltanum ofan í körfuna.

 

Myndir þú íhuga að þjálfa íslenska landsliðið ef þér byðist starfið?

Hah!  Ég held að það séu margir íslenskir þjálfarar sem eru mun hæfari en ég til þess.  Ég er mjög ánægður eins og er að starfa í Stykkishólmi og þjálfa Snæfell.  Á heildina litið hefur þetta verið mjög skemmtileg áskorun hingað til og ég er farinn að hlakka mikið til úrslitakeppninnar.

 

[email protected]

 

Efsta mynd: Stykkishólmspósturinn, Sigurður R. Bjarnason

Aðrar myndir: www.aaifbasket.dk

Fréttir
- Auglýsing -