spot_img
HomeÚti í heimiEvrópaViðtal: Sævaldur og Margrét útskrifuð úr FECC skóla FIBA "Körfuboltinn er lifandi...

Viðtal: Sævaldur og Margrét útskrifuð úr FECC skóla FIBA “Körfuboltinn er lifandi íþrótt”

Þjálfararnir Margrét Sturlaugsdóttir og Sævaldur Bjarnason útskrifuðust í dag úr FECC skóla FIBA í Tel Aviv í Ísrael. Eru þau þá komin í hóp fárra íslenskra þjálfara sem klárað hafa skólann, en aðrir eru Einar Árni Jóhannsson, Ingi Þór Steinþórsson, Hjalti Þór Vilhjálmsson, Ágúst Björgvinsson, Lárus Jónsson og Hallgrímur Brynjólfsson. Mun Margrét því vera fyrst íslenskra kvenna til þess að klára námið.

Karfan sló á þráðinn til Ísrael og fékk að skyggnast aðeins inn námið og ferð þeirra að endamarkinu.

Útskriftarárgangur 2019

Hvaða áfanga voru þið að klára nú í dag?

Margrét & Sævaldur: Evrópskt réttindanám í þjálfun körfubolta með áherslu á uppbyggingu afreksmanna/kvenna í körfubolta og kallast FECC eða FIBA Europe coaching certificate.

Sævaldur og Margrét fyrir útskriftina í dag

Hversu langt er þetta nám og hvernig var því háttað?

Margrét & Sævaldur: Tveggja ára nám, þrjár sumarannir með krefjandi heimaverkefnum og heimildaritgerðum. Farið var á 3 evrópumót A-deildar fylgst með og lært af þeim bestu.

Helstu kennarar voru Svetislav Pecic goðaögn í evrópskum körfubolta, þjálfari ársins í ACB sl. tímabil og núverandi þjálfari Barcelona, fyrrum þjálfari Kukoc, Radja, Divac, Petrovic og svo fleiri mætti nefna, með öðrum orðum goðsögn. Pablo Laso þjálfari Real Madrid  sem er núverandi Spánarmeistari og margfaldur Euroleague meistari, Igor kokoskov sem gerði Slóveníu að Evrópumeisturum 2017, þjálfari Phoenix Suns í fyrra og núverandi aðstoðarþjálfari Sacramento Kings. Janic Dvaric geggjaður kennari og margreyndur þjálfari frá fyrrum Júgóslavíu. Nenad Trunic fyrrum landsliðsmaður frá Serbíu, sem er búinn að þjálfa serbneska landsliðið og önnur evrópsk stórlið, er með doktorsgráðu í körfuboltafræðum. Arvik Shivek sleggja í ísraelskum körfubolta, sem og í Evrópu, þjálfað bæði landslið og félagslið víðsvegar um álfuna. Einnig Aysim Altha sem var með mannlega þáttinn og persónugreininguna á leikmönnum og þjálfurum.

Náminu er skipt upp í 3 hluta og partur af náminu er að fylgjast með og greina þróunina á 3 mótum frá U-16 til U-20 Í efstu deild Evrópukeppninnar í A-deild. Fyrsta árið í náminu fer í að kenna uppbyggingu einstaklinga, næsta ár uppbyggingu liða og nú á lokaári er farið djúpt í uppbyggingu landsliða og efstu deilda. Verkefnin eru greining leikmanna, liða og stórar heimildaritgerðir þar sem þjálfurum er úthlutað ákveðið umfjöllunarefni. Á lokaári eru 3 stór próf, skriflegt, verklegt og munnlegt þar sem áður taldir snillingar láta alla hafa vel fyrir hlutunum. Við vorum 66 sem hófum þetta nám og 52 útskrifuðust. Það er enginn afsláttur veittur og fólk leggur virkilega hart að sér.

Þetta er frábært nám sem er krefjandi og tengir allan grunn við það nýjasta sem er í gangi, enda er körfubolti lifandi íþrótt þar sem þjálfarar nútímans eru alltaf að búa til og betrumbæta taktík og tækni.

Nemendurnir með Nenad Trunic

Hvað var áhugaverðast við námið?

Margrét: Ég hafði hugsað um námið í nokkurn tíma og fannst tími til komin þarna 2016-17 að sækja um. Það er valið í þetta og ekki allir sem komast að þó sótt sé um því hvert land getur sent 1 til 2 einstaklinga fyrir tímabil og því eru reynslumiklir og góðir þjálfarar sem sækja um, enda hentar námið best þeim sem hafa góða reynslu.

Ég taldi mig vera með ágætis reynslu en þetta nám fyllir í allskonar eyður og kennir manni að búa til lið. Hvaða karaktera á að hafa í hverri stöðu og hvernig týpur henta í hverja stöðu og síðast en ekki síst hvernig á að þjálfa leikmenn upp til að ná sem lengst. Doktorinn, Trunic sjálfur, hamraði oft á því að það tæki bara eina ranga manneskju til að skemma gott lið. Við búum reyndar ekki alltaf yfir þeim möguleika að velja hópinn, en það er kannski samt svolítið að breytast enda leikmenn ekki eins trygglyndir uppeldisfélögum eins og þeir voru, en að sjálfsögðu eiga þessar upplýsingar meira við um meistaraflokka og landslið.

Hvað mig varðar þá var náttúrulega óheppilegt að greinast með krabbamein stuttu eftir fyrstu lotu en ég ákvað strax að nota það ekki sem neina afsökun þó að það hafi oft verið eilítið flókið en ég þurfti ég að fara til Riga á annarri önn hárlaus og frekar illa útlítandi, en með samþykki um að vera með sérvalið sjúkrahús sem ég gæti leitað ef eitthvað kæmi upp á. Það kom ekki til greina að að nýta  ekki plássið fyrst ég varð fyrir valinu. 

Það er gaman að vera fyrsta íslenska konan sem sækir þessa gráðu en við vorum 11 kvenmenn af 66 sem hófu námið og þar af útskrifuðust 8 konur sem eru að þjálfa víðsvegar um Evrópu.

Sævaldur á æfingu

Sævaldur: Það sem mér þótti áhugaverðast við námið er hversu fjölbreytt, krefjandi og áhugavert það er.  Maður er í svo mikilli nánd við fyrirlestara á hverjum degi, hittir þá í spjalli um körfubolta og þeir eru alltaf tilbúnir til þess að hjálpa og leiðbeina manni með hvað sem er.  Það er auk þess 60 aðrir nemendur hérna frá öðrum Evrópulöndum þannig að tenglsanet og vinátta sem maður skapar og myndar við fjölda fólks er frábær.  

Tækifærin eru ótrúlega mikil í þessu og ef maður er opin fyrir því að spjalla, hitta aðra og gefa af sér mun maður fá það verðlaunað margfallt til baka. Hvað námið sjálft varðar er þetta mjög viðamikði, tekið á svo mörugm þáttum leiksins að maður tekur með sér fjölmörg verkfæri aftur heim sem munu nýtast manni í boltanum.  Auk þess er maður að fylgjast með bestu evrópsku leikmönnunum á hverjum aldri hverju sinni eftir því á hvaða ári maður er og það er ótrúlega lærdómsríkt að horfa á þessi bestu lið og bestu leikmenn, þeir setja standard og maður kemur heim og veit til hvers er ætlast og hvað þarf tli þess að komast á þetta level sem maður er að horfa á hverju sinni.  Auk þess er þetta algjör toppgæða körfubolti á köflum þannig að það skemmir ekki fyrir. Námið var mjög áhugavert og lærdómrsíkt.

Margrét, Sævaldur og samnemendur fylgjast með leik saman

Er mikill munur á aðferðunum sem þið voruð að læra þarna og þeim sem viðhafast á Íslandi?

Margrét: Það er kannski ekki mikill munur en þó eins og við svo sem vissum þá eru þjóðirnar sem við vorum að læra af töluvert stærri og með rosalega hefð og mikinn metnað. Lönd eins og Serbía, Litháen, Slóvenía, Spánn,Frakkland og Þýskaland, en þessi lönd eru með prógröm sem taka inn krakka sem sýna sérstaka getu mjög snemma og kerfisbundið byggja þau upp í að verða afreksfólk. Við höfum hitt á nokkra svona demanta heima en mættum nýta okkur þessa aðferðafræði betur.

Sem dæmi þá fara yngri landsliðin í Serbíu í 4-6 vikur í undirbúning og á þeim tíma fá liðsmenn að fara heim til sín í eitt eða tvö skipti. Annars er bara verið að vinna með þeim og í þeim því andlegi þátturinn er alltaf að fá meira og meira pláss, enda gríðarlega mikilvægur. 

Margrét með Igor Kokoskov

Ég veit ekki hvort íslenskir unglingar eða foreldrar væru til í þetta. Mín skoðun er að við þurfum að sýna þennan metnað en kannski tóna hann niður í það sem hentar okkur íslendingum.

Hvað varðar aðferðafræði þá eru þessar þjóðir töluvert framar okkur í öllum mælingum og eftirfylgni, en þó er körfuboltahreyfingin heima mikið að koma til. Fræðin segja að hvert lið eigi að vera með 4 tímabil sem liðin taka próf eða mælingar í grunnþáttum til að fylgjast með framgangi áætlunar sem sett er upp fyrir liðið. Mín reynsla er sú að þetta er ekki nógu algengt og of mikið horft í stöðu liðsins í töflunni. Við erum svolítið gjörn á að sleppa úr köflum því við erum að flýta okkur að verða íslandsmeistarar. 

Hjá þessum þjóðum er líka verið að vinna kerfisbundið í að fjölga góðum þjálfurum innan sambandanna og er þetta nám einmitt sprottið af þeirri hugsun hjá FIBA. Gæðin koma með betri þjálfurum og mikilvægt að hvert sérsamband leggi áherslu á fræðslu og uppbyggingu innan sinna raða. KKÍ á hrós skilið, enda mikið lagt upp úr því að bjóða uppá námskeið fyrir nýja sem eldri þjálfara og gaman að sjá að þjálfarar eru að nýta sér það enda eru ávallt sleggjur að mæta.

Á leik í úrslitum undir 20 ára í Ísrael

Sævaldur: Það sem við erum að læra hérna er auðvitað í sjálfu sér ekkert nýtt eða eitthvað sem við ekki þekkjum áður og ég verð að segja að við skandinanvísku og þýsku nemendurnir erum frekar framarlega hvað varðar kennslu í undirstöðuatriðunum og kennslufræðina á námskeiðinu.  Þetta er byggt þannig upp að kenna undirstöðuatriði fyrst og fremst og hvernig maður fer að því að búa til og móta leikmann sem hefur hæfileika og hvaða tæki og tól hann þarf til þess að verða A-landsliðsleikmaður eða atvinumaður þegar hann hefur lokið prógrammi hjá undir 20 ára.   

Þannig í gruninn er þetta kennsla í undirstöðuatriðunum fyrst og fremst, en inni í því er einmitt svo gríðarlega mikill lærdómur, hvernig maður kennir og hvað á hvaða tíma. Skipulagning  og heilstætt yfirlit fyrir hvern og einn leikmann er gríðarlega mikilvægt, að maður hafi eitthvað plan fyrir framan sig og sé markvisst að vinna eftir því að bæta leikmenn og lið til hagsbóta fyrir evrópskan og íslenskan körfubolta.  Svo eru þjálfararnir í náminu alltaf með mismnandi áherslur hvernig ákveðin atriði leiksins eru kennd og þessháttar, en á heildina litið er þetta fyrst og fremst byggt upp skref fyrir skref frá uundir 14 ára til undir 20 ára með öllum þeim þáttum leiksins sem hægt er. 

Hvernig haldið þið að þið munuð nýta ykkur þetta?

Margrét: Ég er er strax farin að huga að næsta skrefi en reyndar ekki búin að ákveða neitt. Það væri gaman að fara í að fræða aðra þjálfara eða jafnvel meira nám.. vantar fyrsta Doktorinn í körfuboltafræðum á Íslandi nei segi svona… Ætli maður fari ekki að stússast eitthvað í körfubolta.

Sævaldur: Ég er ekki í nokkrum vafa að þetta nám mun nýtast mér í framtíðinni og er í raun þegar farið að gera það. Maður lærir á meðan maður lifir og þetta er mjög krefjandi nám,  æfingar- fyrirlestar og leikir frá 09.00 á morgnanna fram undir miðnætti hvern dag í 8 daga.  Þannig að svona nám og þessi undirbúningur mun hjálpa mér að verða betri þjálfari og ég hef síðan verið að hjálpa til í kennslu hjá KKÍ þar sem ég reyni að miðla af minni reynslu og þeirri tækni og tólum sem mér hafa verið boðið uppá. Auk þess er námið sett þannig upp að maður er í stöðugu sambandi við samnemendur og tengslanetið er orðin ansi stórt um alla Evrópu, sem mun einnig hjálpa manni að verða betri.  Námið hefur verið frábær skóli og ég mun halda áfram að reyna að miðla þvi áfram til þeirra sem vilja hlusta og telja sig geta lært meira.  

Að lokum langar mig svo bara að segja að svona nám er frábært tækifæri fyrir þjálfara sem vilja einbeita sér að þjálfun og “development” á ungum leikmönnum, þetta er ekki hugsað fyrir þá sem ætla sér bara að vera í meistaraflokksþjálfun, því hugmyndafræðin byggir á því að kenna og búa til leikmenn. Ég hef verið lánsamur að fá að vinna með ótrúlegum fjölda leikmanna á landsliðs-levelinu og elstu yngri flokkunum í gegnum tíðina og við erum að gera ótrúlega marga flotta hluti í körfuboltasamfélaginu. Ég tel að svona nám og þeir sem það sækja verði öflugri þjálfarar og koma heim reynslunin ríkari og tilbúnir til þess að miðla af þessu, það mun bara efla okkar starf ennþá frekar og við búum þá ti lfleiri A-landsliðlsiekmenn og vonandi Atvinnumenn í kjölfarið en það er einmitt stóra markmiðið okkar I þessu, að reyna að búa til afreksmenn sem munu síðan hjálpa íslenskum körfubolta að þroskast og verða betri. 

Ég vill því enda á því að hvetja alla áhugsama þjálfara sem vilja verða betri að hika ekki um að sækja um þegar næst verður auglýst eftir 2 ár eftir nýjum árgangi, því að ég sé ekki eftir einni sekúndu af þessu námi mínu og er í raun bara dapur að hugsa til þess að þessu sé nú lokið og maður komi ekki aftur að ári til að hitta þjálfara og vini sína. Fagmennska og metnaður er í þessu starfi og allir vilja gera vel. Áfram Körfubolti. 

Fréttir
- Auglýsing -