Tímabil beggja Domino´s deilda er hafið. Ég fylgdist nú lítið með því hvaða liðum var spáð góðu gengi en það segir sig sjálft að liðunum sem spáð var bestu gengi hljóta að vera KR, Tindastóll og Stjarnan í Domino´s deild karla og Snæfell og Skallagrímur í Domino´s deild kvenna.
Í Domino´s deild kvenna er Snæfell eitthvað að hiksta í byrjun. Þær vita það þó líklega best að það lyftir enginn bikurum í október. Sem er reyndar kjaftæði því 23rd World Senior Championship í Karate fór fram í Linz í Austuríki í lok mánaðarins og þar lyftu nokkuð margir Japanir og eilítið færri Frakkar bikurum. Snæfell eru búnar að endurheimta Bryndísi og um leið og þær fá góðan erlendan leikmann er ekki við öðru að búast en þær fari á sigurbraut. Það er þó hugsanlegt að tímabilið verði þeim ekki eins auðvelt og maður hefði búist við fyrirfram því Skallagrímur er með rosalega vel kvenmannað lið og þá hafa ungu stelpurnar í Keflavík komið einstaklega á óvart. Það var vitað að það væru gæði í því liði og það kannski sannast hið fornkveðna; „If you are good enough – you are old enough“. Ég hef trú á því að Grindavíkurliðið verði bara sterkara þrátt fyrir brösuga byrjun enda vel kvenmannað lið.
Fljótt á litið virðist fátt ætla að koma í veg fyrir fjórða titil KR í röð í Domino´s deild karla. Á meðan lykilmennirnir Pavel og Jón Arnór eru svuntuklæddir að afgreiða kjöt og fisk á horni Bergstaðastrætis rúlla félagar þeirra upp hverju liðinu á fætur öðru. Brynjar Björn er farinn að lýta út eins og Brynjar Björn og má hann kannski þakka sínum eigin körfuboltanámskeiðum fyrir. Þá lítur nýji kaninn þeirra virkilega vel út, amk körfuboltalega. Ég held að það myndi ekki skaða neinn þó hann liti við í Kjöt og Fisk og nældi sér í fiskmeti og sleppti sósunum. Það er reyndar hætt við því að kjötiðnaðarmennirnir þar á bæ yrðu sólgnir í að munda þráðbeitta skurðarhnífana á þessi gómsætu innlæri og þessa risastóru „rump-steak“ sem hann ber…
Stjarnan lýtur ansi vel út og koma Hlyns Bæringssonar gerir það að verkum að baráttan um annað sætið verður enn harðari. Það verður seint sagt að Stjarnan spili skemmtilegan körfubolta en þegar liðið hefur náð að stilla saman strengi er klárt mál að þeir munu spila árangursríkan körfubolta. Það fer hver að verða síðastur fyrir Justin Shouse að næla sér í þann stóra og yrði nú ansi gaman að sjá hann lyfta þeim stóra á meðan hann er í lykilhlutverki. Hvað er annars málið með þetta svitaband sem hann ber? Það er of mörgum spurningum ósvarað um það og í raun er það efni í sér pistil. Ég vill þó nefna að ég skil mæta vel þá leikmenn sem taka það af honum í sífellu. Það hefur ekkert með Justin að gera, menn eru bara forvitnir að vita hvernig hægt er að framleiða svitaband sem hylur meira af höfuðleðri en Latarbæjarbuff!
En meira síðar.
Sævar Sævarsson