Körfuboltinn hefur verið á fleygiferð á Íslandi síðustu ár. Karlalandsliðið flýgur með himinskautum og fjöldi liða og leikmanna í Íslandsmóti yngri flokka hefur stöðugt aukist. Samhliða fjölgun iðkenda þá fjölgar flokkum og leikjum í yngri flokkum. Í vetur fjölgar yngri flokkum í körfu til að mynda um þrjá milli ára og leikjum í Íslandsmóti um sirka 370.
Vöxturinn reynir á og nú er svo komið að félögin þurfa að gera átak í eflingu sinna innviða. Við sem í hreyfingunni störfum þurfum að gera störf í körfuboltanum eftirsóknarverðari með betra vinnuumhverfi og sérstaklega með hærri launum. Við þurfum einfaldlega að hækka laun þjálfara, dómara og stattara. Okkur skortir fleira gott fólk því án þessara mikilvægu krafta gengur starfið okkar ekki upp.
Peningar vaxa svo sannarlega ekki á trjánum og tíminn er af skornum skammti. Því má til áréttingar alveg orða þetta þannig að hærra hlutfall af tekjum félaga og athygli forráðafólks, þarf að fara í þjálfara, dómara og stattara.
Það er alveg ljóst að þróunin er slæm og ef ekki er breytt um kúrs stefnir í óefni. Mörg félög eru í vandræðum. Mér sýnist af fréttum síðustu missera að það gangi illa að manna þjálfarastöður og þjónustan sem iðkendur fái í vetur verði verri en við myndum kjósa í því ljósi. Sem dæmi auglýsti lið nýlega eftir þjálfara þriggja flokka auk yfirþjálfara og annað auglýsti eftir yfirþjálfara í sumar. Hvort tveggja er að gerast miklu seinna en fólk kysi. Fréttir berast nú af því að mörg lið hafi ekki, nú þegar tímabilið er byrjað, fengið þjálfara á ýmsa yngri flokka.
Sömu sögu væri hægt að segja af dómarastéttinni og öðrum starfsmönnum og af þjálfurunum. Dómarar eru of fáir, illa gengur að manna leiki. Víða gengur illa að þjálfa upp ritaraborð og manna þau. Skemmst er að minna vandræðum við mönnun ritararaborðs á leik í efstu deild karla.
Hlökkum til vetrarins en þurfum að gera betur
Við hlökkum öll til vetrarins og nýs tímabils. Við viljum öll að yngri flokkar fái frábæra þjálfara, leikir fari vel fram og iðkendur eflist og dafni í starfinu hjá okkur. Þannig getur vöxtur og framþróun íþróttarinnar okkar haldið áfram eins og við vonumst eftir.
Ég hvet okkur öll til að gera okkar til að fjölga þjálfurum, stötturum og dómurum með því að bæta vinnuumhverfi þeirra og hækka laun.
Áfram karfan!
–Björgvin Ingi Ólafsson
Formaður barna- og unglingaráðs kkd Stjörnunnar