spot_img
HomeFréttir´Við erum komnir aftur!´

´Við erum komnir aftur!´

Tindastóll varð fyrsta liðið til þess að leggja Keflavík í Dominos deild karla í kvöld þegar heimamenn snýttu heitasta liðinu í deildinni 97-91.

 

Frá upphafi var frábær stemmning í Síkinu og það var eins og menn skynjuðu að eitthvað stórt væri að fara að gerast.  Heyrst hafði að einhverjir stuðningsmenn Stólanna hefðu kíkt við í galdrasafninu á Ströndum og búið væri að leggja álög á gestina.  Það virðist hafa virkað því þeir náðu sér aldrei almennilega í gang og heimamenn innbyrtu sanngjarnan sigur.
 

Leikurinn var jafn og skemmtilegur frá upphafi og þrátt fyrir hikst beggja vegna þá var hraðinn svo mikill að töluvert var skorað beggja vegna.  Byrjunarlið heimamanna var breytt frá síðustu leikjum og strax ljóst að ferskir vindar blésu þó höfðinginn Darrel Lewis færi fyrir sínum mönnum frá byrjun.  Heimamenn sigu fljótlega framúr og leiddu með 8 stigum eftir fyrsta fjórðung 31-23.  Keflvíkingar voru þó að sjálfsögðu ekki hættir og söxuðu jafnt og þétt á forystu heimamanna og Davíð Páll jafnaði 37-37 þegar tvær mínútur voru til hálfleiks.  Dupree kom svo gestunum yfir en þá tók Ingvi til sinna ráða og smellti 6 stigum í röð í andlitið á gestunum.  Lewis tryggði svo jafna stöðu í hálfleik með því að skora síðustu sjö stigin fyrir heimamenn.
 

Staðan 54-54 í hálfleik og gestir í Síkinu voru ekki sáttir,  vissu að Tindastóll yrði að herða róðurinn í vörninni til að eiga séns.
 

Jafnt var á flestum tölum í þriðja fjórðung en gamla brýnið Darrel Flake kom inn með mikla baráttu í vörnina og þegar fjórðungurinn var ríflega hálfnaður sigu heimamenn framúr.  Það stóð þó ekki lengi og refurinn Magnús Gunnarson jafnaði með þrist þegar skammt var eftir fjórðungsins.  Lewis svaraði að bragði og heimamenn leiddu 74-71 fyrir lokaátökin.
 

Síðasti fjórðungurinn byrjaði með látum og Arnþór sullaði niður tveimur þristum, staðan skyndilega orðin 80-71 og Stólarkomnir á bragðið.  Dupree, Valur Orri og Earl Brawn sáu þó til þess að Tindastóll stakk ekki af og Maggi Gunn, hver annar, jafnaði svo leikinn 87-87 með þristi þegar rúmar 3 mínútur voru eftir.  Það var allt á suðupunkti í Síkinu og mikill hiti í mönnum en heimamenn héldu haus og munaði þar mestu um Lewis og Hill sem tók tvö gríðarlega mikilvæg sóknarfráköst á síðustu mínútunni.  Karfa frá Lewis og 4 af fimm vítaskotum á síðustu mínútunni tryggðu heimamönnum frábæran sigur ásamt algerri tröllavörn þar sem Keflvíkingar skoruðu ekki stig síðust 2:30 mínútur leiksins sem er saga til næsta bæjar og jafnvel lengra.
 

Eins og áður segir leiddi Lewis lið heimamanna í leiknum og skoraði 32 stig.  Jerome Hill kom einnig sterkur inn með 20 stig þó hann hafi verið mistækur á köflum.  Hann reif líka niður 15 fráköst og þar á meðal þau tvö sem áður var getið.  Liðsheild heimamanna var frábær í kvöld og gríðarleg barátta, sérstaklega í seinni hálfleik skilaði þessum sigri.  Það sást á köflum vel afhverju Keflavík er á toppi deildarinnar en þeir kaflar voru styttri en maður átti von á fyrirfram og þeir virkuðu ekki alveg tilbúnir í baráttuna þó Gummi Jóns hafi gefið allt í botn eins og venjulega.
 

Frábær sigur heimamanna og Keflavík ekki lengur taplaust í deildinni.
 

Tölfræði leiks

 

Texti og mynd: Hjalti Árnason

Mynd: Flake í ham!

Fréttir
- Auglýsing -