“Við erum á góðri leið og við erum í góðu standi”

Haukar lögðu Breiðablik í kvöld í Smáranum í fyrstu umferð Subway deildar karla.

Hérna er meira um leikinn

Karfan tók stöðuna á Maté Dalmay þjálfara Hauka eftir þægilegan sigur:

Maté…þægileg byrjun fyrir þína menn á þessu tímabili…þú hefur ekki verið mjög hræddur við þennan eða hvað…?

Nei…en samt sem áður, þegar maður stjórnar leiknum eins og mér fannst við gera en náum ekki að koma þessu í 20+ og gera út af við leikinn…heldur fer þetta alltaf niður í 10-12 og þá hugsar maður alltaf smá hvort þeir eigi kannski inni einn sprett sem kemur þessu í leik sko…

Einmitt, þá vaknar kannski vonin hjá þeim af fullri alvöru og þannig…

Það var okkar aðal fókus fyrir seinni hálfleikinn að klára þetta. Þegar þeir taka leikhlé og ætla að fara að vinna sig aftur inn í þennan leik þá ætlum við að gefa í! Það heppnaðist hjá okkur í kvöld.

Akkúrat, það stendur einmitt í punktunum mínum snemma í þriðja að nú ætlar Maté sér að klára þennan leik fyrir fullt og allt..

Jájá…við spiluðum 2 leiki við Blika í fyrra og mér leið alltaf eins og við værum með stjórn á þessu en allt í einu er bara 10 stiga munur…og þegar þú ert með þessa skorara á vængjunum sem þeir eru með þá er alltaf stutt í að þeir setji 10 stig hratt á þig og allt í einu ertu í einhverjum 50/50 leik.

En Blikaliðið var nú klárlega sterkara á síðasta tímabili eða hvað…

Já…það vantar náttúrulega 2 byrjunarliðsleikmenn, Snorra Vignis og Árna Elmar, í kvöld og þegar þeir eru með og stóri leikmaðurinn þeirra kemst í betra stand og leikform með þeim, þá held ég að þeir á góðu kvöldi þegar þessi skot af dripplinu hjá Keith og Everage fara ofaní, geti alveg strítt öllum alveg eins og í fyrra.

Já, þá geta þeir orðið hættulegir. En þitt lið…! Þú ert með bara alveg nýtt lið, meira og minna…

Já, alveg glænýtt, Breki var sá eini í dag sem var með, Daníel er svo meiddur.

Þú hlýtur að vera ánægður með stöðuna á þínu liði, maður gat ekki séð það að þetta væri alveg glænýtt lið að spila hérna.

Við erum í góðu formi, ágætis rytmi í okkur…en það var ekki t.d. nú fyrir viku þegar við spiluðum æfingaleik gegn Álftanesi þar sem við töpuðum, þá fengum við smá reality check, þeir mættu bara í líkamlegu standi eins og við, róteruðu betur en  við og þetta gaf okkur smá jarðtengingu. Við vorum búnir að taka æfingaleikina þar á undan með miklum mun, þannig að ég er bara mjög ánægður með að hafa fengið þetta spark í rassinn á strákunum… að þetta verður ekkert auðvelt…

Já…þetta var fínt tap!

Já!

En þú ert væntanlega ánægður með þína leikmenn, erlendu leikmennirnir….þarna Heineken og Thule eða hvað þeir heita þarna…ekki alveg búinn að ná því…og Jalen Moore…hann virðist vera mjög góður…ég er væntanlega að meta þetta rétt?

Já, algerlega. Og eins og í dag, Osku Heinonen, sem menn kalla Heineken, hann hitti ekki neitt! Hann setti ekki þrist fyrr en í seinni hálfleik, þetta er langversti leikurinn hans fyrir okkur sóknarlega. Þannig að það er fulltfullt af plássi for improvement á góðri íslensku.

Já, akkúrat og þó það nú væri, svona eftir fyrsta leik…

Algerlega, en við erum á góðri leið og við erum í góðu standi, ég er ánægður með alla sem komu inn af bekknum, við erum með ágætis þak í þessu, til þess að gera eitthvað.

Sagði Maté, og undirritaður getur ekki annað en verið bjartsýnn og spenntur fyrir tímabilinu fyrir hönd Hauka.