spot_img
HomeBikarkeppniVestri sló Hauka óvænt úr bikarnum

Vestri sló Hauka óvænt úr bikarnum

Vestri og Haukar mættist í dag á Ísjakanum á Ísafirði í 16 liða úrslitum Geysisbikarsins. Haukar eru sem stendur í 6-9. sæti í Úrvalsdeildinni á meðan Vestri er í 4. sæti í 1. deildinni en liðin mættust síðast í leik í bikarnum fyrir tveimur árum og þá rúlluðu Haukar yfir heimamenn, 68-109, eftir að hafa leitt með einu stigi í hálfleik. Fyrirfram mátti því kannski búast við að það sama yrði upp á teningnum í dag. Haukar voru þó án bandaríkjamannsins síns, Marques Oliver, en sökum meiðsla mun hann ekki spila fleiri leiki á tímabilinu. Vestri var einnig án bandaríkjamannsins í sínum herbúðum, André Huges, en hann hafði fengið að fara fyrr í jólafrí af persónulegum ástæðum.

Gangur leiksins
Það var ljóst á upphafsmínútunum að leikmenn Vestra voru ekki bara mættir í þennan leik til að vera með. Haukar byrjuðu vissulega betur en þeir náðu muninum aldrei í tveggja stafa tölu. Mest komust þeir 9 stigum yfir, 31-40, en þá skoruðu heimamenn 10 ósvöruð stig í röð og fóru að lokum með 3 stiga forustu inn í hálfleik, 43-40. Vestfjarðartröllið Nemanja Knezevic fór mikinn í fyrri hálfleik en í honum tók hann 15 fráköst, tveimur meira en allt byrjunarlið Hauka til samans.

Ef einhver hélt að leikurinn frá því fyrir tveimur árum væri að fara endurtaka sig í seinni hálfleik þá var sá miskilningur leiðréttur strax á upphafsmínútunum. Hugi Hallgrímsson byrjaði að setja niður þriggja stiga skot fyrir Vestra og þegar 5 mínútur voru liðnar þá voru heimamenn komnir 10 stigum yfir, 58-48. Þrátt fyrir leikhlé hjá Haukum þá héldu heimamenn áfram og náðu mest 13 stiga forustu, 63-50, þegar tvær og hálf mínúta voru eftir í leikhlutanum. Haukar náðu muninum aðeins niður en virtust ekki ætla að ná honum í minna en 8 stig.

Þegar 5 mínútur lifðu leiks urðu Vestramenn fyrir áfalli því Nemanja Knezevic fékk sína fimmtu villu. Haukar skiptu þá strax sínum eina stóra manni, Adam Smára Ólafssyni útaf, og keyrðu á minni og hraðari liðsuppstillingu.

Þegar innan við þrjár mínútur eru eftir ná Haukar að jafna, 79-79, en Nebojsa Knezevic skorar þá 4 stig í röð fyrir Vestra. Haukur Hreinsson virðist svo gera út um leikinn þegar hann skorar körfu þegar 20 sekúndur eru eftir af leiknum og kemur Vestra í 87-79. Hilmar Smári Henningsson skorar hins vegar þriggja stiga körfu strax eftir leikhlé Hauka og fiskar villu að auki. Hann klikkar á vítinu en Daði Lár Jónsson nær frákastinu og brotið er á honum í skoti með 3,8 sekúndur eftir. Hann setur þó einungis annað vítið niður og lengra komustu Haukar ekki.

Ungviðið
Þrír 16 ára leikmenn Vestra fengu stórt hlutverk í leiknum. Hugi Hallgrímsson skoraði 12 stig á rétt undir 26 mínútum, Hilmir Hallgrímsson skoraði 6 stig og gaf 5 stoðsendingar á rúmum 24 mínútum og Egill Fjölnisson leysti hlutverk sitt sem þriðji stóri maður Vestra ágætlega og skoraði 2 stig og tók 4 fráköst á 10 mínútum.

Maður leiksins
Nebojsa Knezevic átti stórleik fyrir Vestra en hann skoraði 36 stig, tók 8 fráköst, gaf 9 stoðsendingar og varði 3 skot. Hann hitti einnig úr 12 af 19 skotum sínum, þar af 4 af 7 þriggja stiga skotum.

Helstu stigaskorarar
Nebojsa var sem fyrr segir stigahæsti maður vallarins með 36 stig en á eftir honum kom Vestfjarðartröllið Nemanja Knezevic með 17 stig auk þess sem hann tók 23 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Hinn 16 ára gamli Hugi Hallgrímsson átti svo líklegast sinn einn besta leik í vetur en hann skorað 12 stig og gaf 3 stoðsendingar.

Kristinn Marinósson var stigahæstur hjá Haukum með 25 stig en hann setti niður 6 af 12 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Hilmar Smári Henningsson kom næstur með 21 stig en Matic Macek og Daði Lár Jónsson bættu báðir við 8 stigum.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -