Gangur leiksins
Líkt og í leik liðanna í gær þá byrjað Vestri betur og var ávallt skrefinu á undan. Þeir náðu þó aldrei að hrista gestina almennilega af sér í fyrri hálfleik enda var Sindri að fá meira framlag frá fleiri leikmönnum en deginum áður. Það var þó aðeins eitt lið sem mætti til leiks í þriðja leikhluta og það voru heimamenn en þeir unnu leikhlutann 25-12. Mest náðu þeir 30 stiga forustu í lokaleikhlutanum áður en Barrington Stevens náði að laga stöðuna aðeins fyrir Sindra síðustu 5 mínúturnar.
Ísfirðingurinn fljúgandi
Hinn 16 ára gamli Hugi Hallgrímsson hjá Vestra hefur fengið hjartað hjá lýsendum Jakans TV til að slá hraðar með háloftatilþrifum sínum í vetur. Dagurinn í dag var engin undantekning.
Fiskaðir ruðningar
Ókrýndur konungur listarinnar í að fiska ruðninga, Gunnlaugur Gunnlaugsson hjá Vestra, var í sínu besta formi í leiknum og fiskaði heila fimm ruðninga á leikmenn Sindra.
Maður leiksins
André Huges átti sinn besta leik í vetur fyrir Vestra en hann skoraði 23 stig, tók 10 fráköst og gaf 6 stoðsendingar í leiknum.
Helstu stigaskorarar
André Huges og Nemanja Knezevic voru stigahæstir hjá Vestra með 23 stig hvor. Nebojsa Knezevic kom næstur með 13 stig en hann tók einnig 8 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Ingimar Baldursson bætti svo við 9 stigum og Helgi Bergsteinsson átti ágætis innkomu með 8 stig á 9 mínútum.
Hjá Sindra var Barrington Stevens stigahæstur með 15 stig en 10 þeirra komu á síðustu 5 mínútunum þegar úrslitin voru þegar ráðin á móti varamönnum Vestra. Ivan Kekic kom næstur með 12 stig og var besti maður Sindra í leiknum. Árni Birgir Þorvarðarson skoraði 11 stig og Helgi Guðjónsson 10 stig.
Hvað er næst?
Vestri situr hjá í fyrstu umferð bikarsins og leikur ekki aftur fyrr en 16. nóvember er það mætir Hamri deildinni. Sindri mætir hins vegar Selfoss í fyrstu umferð bikarsins mánudaginn 5. nóvember.