Vestri lagði Skallagrím að velli, 99-80, í 1. deild karla í gærkvöldi. Þetta var frestaður leikur sem átti upphaflega að fara fram þann 20. desember síðastliðinn.
Vestri hafði frumkvæðið í fyrsta fjórðungi og leiddi með 34 stigum gegn 21 að honum loknum. Í öðrum leikhluta komust Skallagrímsmenn betur inn í leikinn og var staðan 55-48 fyrir Vestra í hálfleik. Í byrjun seinni háfleiks komust Borgnesingar 58-59 yfir en Vestramenn svöruðu þá með 11 stigum í röð og létu forustuna ekki af hendi eftir það.
Nebojsa Knezevic var besti maður vallarins og endaði með tvöfalda tvennu, 35 stig og 11 stoðsendingar auk þess að taka 4 fráköst og stela 2 boltum. Hjá Skallagrím var Kristján Örn Ómarsson stigahæstur með 20 stig auk þess að vera með 6 fráköst og 4 stoðsendingar.
Nánari umfjöllun um leikinn ásamt viðtölum við þjálfara má finna á vefsíðu Vestra.