Selfoss Karfa og Vestri mættust í Vallaskóla á Selfossi í gærkvöldi í 1. deild karla. Selfoss var fyrir leikinn án sigurs eftir tvo leiki á meðan Vestri var með einn sigur og eitt tap. Fyrir leikinn gaf Selfoss það út að Matej Delinac og Friðrik Hrafn Jóhannsson væru hættir. Matej, sem kemur frá Kanada, hafði byrjað báða leiki Selfyssinga á tímabilinu og skorað 10,5 stig að meðaltali í leik á meðan Friðrik hafði verið í hóp í einum leik.
Gangur leiksins
Selfyssingar hittu vel í byrjun og leiddu 20-12 um miðbik fyrsta leikhluta. Vestanmenn skelltu þá í lás og kláruðu síðustu fjórar mínúturnar á 12-2 áhlaupi. Þeir héldu svo áfram að bæta í í öðrum leikhluta sem þeir unnu 17-26 en mest náði Vestri 12 stiga forustu, 53-41, í leikhlutanum. Heimamenn komu þó beittari til leiks í seinni hálfleik og unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn. Og gott betur, því í fjórða leikhluta komust Selfyssingar yfir og leiddu með 5 stigum þegar rúmlega 5 mínútur lifðu leiks. Þeir náðu þó aldrei að hrista Vestra af sér sem að lokum náði forustunni aftur og kláraði leikinn á vítalínunni, en sjö síðustu stig þeirra komu þaðan. Lokastaðan 84-89 gestunum í vil.
Maður leiksins
Stoðsendingarkóngur 1. deildarinnar í fyrra, Nebojsa Knezevic, fór fyrir Vestramönnum líkt og áður og endaði með 27 stig og 7 stoðsendingar. Hann leiðir einnig deildina í ár með 8,0 stoðsendingum að meðaltali.
Vestfjarðatengingin
Á einum tíma punkti í leiknum voru inn á 8 leikmenn sem höfðu spilað fyrir Vestra/KFÍ en Björn Ásgeir Ásgeirsson og Adam Smári Ólafsson hjá Selfossi léku báðir með Vestra í fyrra auk þess sem Ari Gylfason lék tvö tímabil með KFÍ í Úrvals- og 1. deild í upphafi áratugarins.
Slæm byrjun
Annað árið í röð byrjar Selfoss tímabilið á þremur tapleikjum í röð og ágætist líkur á að sá fjórði bætist við í næstu umferð á móti Fjölni. Liðið ætti þó ekki að endurtaka 7 tapleikja byrjunina frá því í fyrra því næstu leikir þeirra á eftir Fjölnisleiknum eru á móti botnliði Snæfells og Sindra, sem spáð var neðsta sæti deildarinnar í spá KKÍ fyrir veturinn.
Helstu stigaskorarar
Hjá Selfossi var Michael Rodriguez stigahæstur með 29 stig en Ari Gylfason braut einnig 20 stiga múrinn með 21 stigi. Björn Ásgeir Ásgeirsson og Snjólfur Marel Stefánsson komu næstir með 12 stig hvor.
Nebojsa var stigahæstur hjá Vestra með 27 stig en fóstbróðir hans Nemanja Knezevic var með 21 stig og 11 fráköst. André Huges skoraði 16 stig og tók 7 fráköst og Ingimar Baldursson skoraði 12 stig.
Hvað er næst?
Selfoss mætir Fjölni á föstudaginn á meðan Vestri leikur tvo leiki við Sindra frá Höfn á laugardag og sunnudag.