spot_img
HomeNeðri deildir2. deild karlaVestri hóf tímabilið með sigri - Baldur í fimm áratuga klúbbinn

Vestri hóf tímabilið með sigri – Baldur í fimm áratuga klúbbinn

Vestri og Snæfell mættust í 2. deild karla í morgun kl 11:00. Gestirnir voru ferskari í byrjun og leiddu 18-20 eftir fyrsta leikhluta og 37-42 hálfleik. Í seinni hálfleik voru heimamenn loksins búnir að nudda stírurnar úr augunum og tóku öll völd á leiknum og leiddu mest 81-65. Gestirnir náðu að laga stöðuna aðeins áður en lokaflautið gall og lokastaðan 81-71.

Marko Jurica var langbesti leikmaður vallarins og skoraði hann 40 stig fyrir Vestra. Ingimar Baldursson setti 18 stig í sínum fyrsta leik í tvo ár og Gunnlaugur Gunnlaugsson kom næstur hjá Vestra með 8 stig og annað eins af fiskuðum ruðningum.

Hjá Snæfell voru Aron og Alex stigahæstir með 16 stig en Júlíus kom næstur með 10 stig.

Vigurbolinn Baldur Ingi Jónasson, sem fagnaði 50 ára afmæli sínu í sumar, tók fram skóna í leiknum við mikinn fögnuð áhorfenda en hann lagði skóna á hilluna eftir að hafa slitið hásin í leik í janúar 2019. Með leiknum í dag komst hann í þann afar fámenna hóp með að hafa spilað meistaraflokksleik á fimm mismunandi áratugum en hann hóf leik árið 1989 og lék næstu 30 tímabilin þangað til í leiknum örlagaríka árið 2019. Þess má geta að tveir af sonum hans, þeir Ingimar og Elmar, léku einnig í leiknum í dag.

Þetta var fyrsti leikur Vestra í 2. deildinni í 28 ár en félagið lék þar síðast er það vann deildina vorið 1994 undir merkjum Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar (KFÍ). Félagið féll eins og flestir vita úr Úrvalsdeildinni í vor. Líkt og Vestri er Snæfell einnig uppbyggingarfasa eftir að hafa verið eitt af bestu liðum landsins lengi vel á öldinni.

Fréttir
- Auglýsing -