NBA deildin frestaði öllum leikjum sínum fyrir tæpum mánuði þegar ljóst var að miðherji Utah Jazz, Rudy Gobert, hafði greinst með Covid-19. Ekki hefur verið ljóst síðan, nákvæmlega hvenær deildin mun hefjast aftur, en þagar leikjum var frestað voru bæði nokkrir leikir af deildarkeppninni eftir, sem og átti eftir að leika úrslitakeppni um meistaratitilinn.
Samkvæmt heimildum Brian Windhorst hjá ESPN munu forráðamenn liðanna nú margir vera orðnir nokkuð svartsýnir á að möguleiki verði að klára 2019-20 tímabilið á einn hátt eða annan. Segir hann meðal annars.
“Þessa vikuna fóru fram viðræður á milli stéttarfélags leikmanna og deildarinnar, ég hef heyrt í báðum hliðum og það er nokkuð ljóst að NBA deildin er að kanna möguleika þess að vera með samning tilbúinn, sem leyfir þeim að aflýsa mótinu”
“Þeir hafa ekki gert það ennþá, en þeir eru að vinna í því að hafa eina lausn sem auðveldar þeim að gera það, þeir hafa ekki verið að ræða það hvernig væri hægt að setja hana aftur í gang til þess að klára, þetta hafa verið fjárhagslegar viðræður um það hvað gerist ef allt verður blásið af. Það er mín tilfinning að það sé umtalsverð svartsýni þessa stundina á að 2019-20 tímabilið verði klárað á einn hátt eða annan”
Windhorst benti einnig á þá staðreynd að kínversk yfirvöld hefðu á nýjan leik bannað liðsíþróttir eftir að forráðamenn þar í landi höfðu vonast til að kínverska CBA deildin færi aftur af stað þar sem að sjúkdómurinn hafði verið í rénum þar síðustu vikur. Sagði hann að vel væri fylgst með því hvort og hvernig kínverjum tækist að koma íþróttum aftur af stað, því að það væri talið geta gefið forráðamönnum NBA deildarinnar hugmynd um hversu lengi faraldurinn er að ganga yfir þar sem hann hafi byrjað í Kína um það bil tveimur mánuðum fyrr en í Bandaríkjunum.
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni eru nú 276.382 staðfest Covid-19 smit í Bandaríkjunum, þar sem að 7.122 hafa látið lífið. Aukningin dag frá degi enn að aukast, þar sem að tæplega þrjátíu þúsund voru með staðfest smit í gær.