Það voru Njarðvíkingar sem komu grimmari til leiks í kvöld þegar grannar þeirra í Keflavík mættu í Ljónagryfjuna í Lengjubikarnum. Heimamenn sem hafa átt við varnarvandamál að stríða lungan af vetri virtust vera búnir að þétta þann pakka og í kjölfarið skilaði það þeim 90:77 sigri. Montrétturinn er því komin yfir í grænt.
Leikurinn var þó jafn að mestu og aðeins 5 stig sem skildu liðin í hálfleik. Líkt og greint var frá fyrir leik hér á Karfan.is þá var Arnar Freyr Jónsson meiddur og spilaði ekki í þessum leik og munaði líkast til um hans framlag. En Njarðvíkingar virtust einfaldlega vera hungraðari þetta kvöldið. Keflvíkingar reyndu öll varnarafbrigði og megnið af leiknum fór í svæðisvörn. En allt kom fyrir ekki að þessu sinni og urðu gestirnir að játa sig sigraða.
Hjá Njarðvík voru Travis Holmes og Cameron Echols að skila sínu, en Travis skilaði 43 framlagsstigum með 23 stigum, 16 fráköstum, 5 stoðsendingum og 4 stolnum boltum. Elvar Friðriksson heldur áfram að heilla og átti tvo þrista frá gamla staðnum hans Teits Örlygssonar í Ljónagryfjunni.
Hjá Keflavík Var þeirra besti maður Steven Gerard en hann skoraði 19 stig, næstur honum kom Magnús Þór Gunnarsson með 17 stig en var að þessu sinni að spila sárþjáður og viðtal við hann eftir leik má sjá á Karfan TV. Stærsta áhyggjuefni Keflvíkinga hlýtur þó að vera að þeirra erlendu menn voru ekki að skila því í hús sem þeir fá greitt fyrir. Stönginni hefur verið komið hátt á fyrri tímabilum hvað varðar gæði "Kana" í Keflavík og því fá feilspor leyfð. Kæmi alls ekki á óvart að einhver skipti yrðu í Keflavíkinni á næstu vikum í þeim málum og ef miðað verður við þennan leik þá verða það tveir sem fjúka.