Nick O‘Leary, sem þjálfar U17 og U19 landslið Wales, kom með bæði lið í 5 daga æfingaferð til Íslands í
vikunni. Tilgangurinn var að vinna í vexti þeirra sem leikmenn og uppbyggingu sem og að skora á sjálfa sig í nýju umhverfi.

Liðin æfðu að Hlíðarenda í 3 klukkustundir á morgnana og skoðuðu sig svo um í Reykjavík seinni part dags. Báðir aldurshóparnir mættu svo liðum Ármanns og Vals í æfingaleikum og tefldu síðan fram blönduðu liði beggja aldurshópa gegn Fjölni.

Velskur körfubolti er ekki endilega langt á veg kominn svo að leikmönnum, þjálfurum og fararstjórum fannst mikið til koma í mörgu sem að þau upplifðu hér á Íslandi, ekki aðeins hvað varðar gæði körfuboltans heldur líka hvað aðstaðan er víða góð.

Liðin fengu dýrmæta reynslu, sáu margt jákvætt við leik sinn og hvað þyrfti að vinna í sem mun nýtast þeim í komandi landsliðsverkefnum. Leikmenn héldu heim á leið þreyttir en glaðir og var mikil ánægja með Íslandsdvölina.