spot_img
HomeFréttirVeislan er að hefjast!

Veislan er að hefjast!

Úrslitakeppni Dominos deildar karla hefst í kvöld með tvem leikjum. Hér að neðan verður farið yfir einvígi kvöldsins.

 

KR – Grindavík

 

 

 

Deja vu myndi einhver segja, liðin mættust einnig í átta liða úrslitum fyrir ári síðan og þá hafði KR sigur 3-0. KR hefur einnig unnið báða leiki liðanna á þessu tímabili með samtals 39 stiga mun. Núverandi íslands- og bikarmeistarar KR unnu tíu af síðustu ellefu leikjum tímabilsins en Grindavík hafði einungis sigur í einum af síðustu fimm leikjum í deildinni.

 

Liðin koma því með mismikið sjálfstraust til leiks en það yrði stórhættulegt að fara að vanmeta Grindavík. KR varð fyrir mikilli blóðtöku fyrir stuttu þegar Ægir Þór Steinarsson hélt í sólina á Spáni og lauk þar sem keppni fyrir liðið. Liðið hefur þó yfir mikilli breidd að vinna og hafa nú nákvæmlega sama lið og vann titilinn í fyrra. Breytingin ætti því ekki að hafa mikil áhrif en KR þarf þó að finna taktinn hratt og örugglega. 

 

Grindavík er annað árið í röð vonbrigðalið tímabilsins og á mikið inni. Stemmningin sem myndast í Mustad höllinni getur orðið gríðarleg þegar kemur að úrslitakeppninni og gæti gefið Grindavík það sem þarf.  Ef allt er eðlilegt gera flestir ráð fyrir sigri KR og jafnvel öruggum sigri en síðasti sigur Grindavíkur á KR í deild eða bikar kom 25. apríl 2014 sem þýðir að íslandsmeistararnir hafa unnið níu síðustu leiki liðanna. Úrslitakeppnin hefur samt sem áður ítrekað sýnt skemmtanagildi sitt og er aldrei að vita nema Grindavík verði það lið sem komi mest á óvart. 

 

Leikur 1 Fimmtudagur – 17. mars kl. 19:15 – KR – Grindavík

Leikur 2 Sunnudagur – 20. mars kl. 19:15 – Grindavík – KR

Leikur 3 Miðvikudagur – 23. mars kl. 19:15 – KR – Grindavík

Leikur 4 Mánudagur – 28. mars kl. 19:15 – Grindavík – KR (ef þarf)

Leikur 5 Fimmtudagur – 31. mars kl. 19:15 – KR – Grindavík (ef þarf)

 

KR 

 

Tölfræði líklegs byrjunarliðs:

 

Pavel Ermolinskij – 9,2 stig, 8,9 fráköst, 6,7 stoðsendingar, 18,1 framlagsstig

Brynjar Þór Björnsson – 11,7 stig, 2,6 fráköst, 2,7 stoðsendingar, 9,8 framlagsstig.

Helgi Már Magnússon – 11 stig. 3,9 fráköst, 2,3 stoðsendingar, 11,7 framlagsstig

Michael Craion – 23 stig, 11,5 fráköst, 2,5 stoðsendingar, 30,1 framlagsstig

Darri Hilmarsson – 10,7 stig, 4,4 fráköst, 2 stoðsendingar, 11,8 framlagsstig

 

Hvað þarf KR að gera til að vinna Grindavík? 

 

KR þarf að halda þeim stöðugleika sem þeir náðu eftir áramót í ár. Liðið þarf að nýta sér hraðann og bolta hreyfinguna sem er þeirra helsti styrkleiki. Pavel verður væntanlega leikstjórnandi liðsins á nýja vegu eftir brotthvarf Ægis og er ákveðið spurningamerki hversu fljótt liðið nær takti aftur. Breidd liðsins er náttúrulega ógnvænleg og ef KR spilar sinn leik og mæta einbeittir til leiks er erfitt að sjá aðra útkomu en sigur KR. 

 

Mikilvægasti leikmaður:

 

Það væri auðvelt að velja Michael Craion eða Pavel Ermolinskji en lykilmaðurinn í því að KR vinni þetta einvígi er Helgi Már Magnússon. Hann sýndi það bersýnilega í bikarúrslitaleiknum hversu mikilvægur hann er. Getur tekið leikina yfir og drifið allt liðið með þegar þarf. Frábær leikmaður sem heldur nú í sína síðustu úrslitakeppni sem leikmaður og það mun án efa gefa honum auka kraft og vilja. 

 

Grindavík

 

Tölfræði líklegs byrjunarliðs:

 

Jóhann Árni Ólafsson – 11,3 stig, 5,4 fráköst, 3,3 stoðsendingar, 9,3 framlagsstig

Ómar Örn Sævarsson – 11,3 stig, 10,7 fráköst, 2,5 stoðsendingar, 18,4 framlagsstig

Jón Axel Guðmundsson – 16,8 stig, 8 fráköst, 5,2 stoðsendingar, 21 framlagsstig

Þorleifur Ólafsson – 11,7 stig, 4,1 fráköst, 1,5 stoðsending, 10 framlagsstig

Charles W. Garcia Jr. – 19,9 stig, 9,2 fráköst, 2,5 stoðsendingar, 18 framlagsstig

 

Hvað þarf Grindavík að gera til að vinna KR? 

Þetta er auðvelt og einfalt! Lykilleikmenn Grindavíkur verða gjörusvo vel að fara að spila eftir getu. Margir leikmenn liðsins eru þekkt stærð og góðir körfuboltamenn en fæstir hafa spilað þannig í vetur. Grindavík hefur skort trú og baráttu í vetur sem hefur skilað sér í áttunda sæti deildarinnar annað árið í röð sem verður að teljast fullkomlega óviðunandi miðað við leikmannahóp. Jóhann þjálfari hefur sýnt að hann er lunkinn þjálfari en verkefni hans framundan er að fá leikmenn með sér. Ef Grindavík spilar eins og þeir hafa gert síðustu vikur er ekki vafi á því að þeim verður sópað úr keppni. 

 

Mikilvægasti leikmaður?

 

Ómar Örn Sævarsson var ljósi punktur Grindavíkur í lok tímabilsins og blómstraði eftir komu Garcia. Barátta hans og vilji á eftir að vera algjör vendipunktur í þessu einvígi, ef hann nær að dreifa því yfir á meðspilara sína er allt mögulegt. Hann verður mikilvægur fyrir Grindavík í baráttunni gegn Mike Craion því hann virðist eiga meiri möguleika í hann en Chuck Garcia.

_____________________________________________________________________________________

Keflavík – Tindastóll

Eitt allra áhugaverðasta einvígi þessarar umferðar. Keflavík það lið sem byrjaði tímabilið best en endaði það á ósannfærandi hátt. Á sama tíma var Tindastóll það lið sem byrjaði deildina hvað verst en endaði hana frábærlega.

Keflavík kom liða mest á óvart í vetur og var spáð áttunda sæti, Sigurður Ingimundarson hefur enn og aftur sýnt hversu frábær þjálfari hann er með árangri liðsins í vetur. Liðið spilar vel á sína styrkleika sem eru hraði og harka. Keflavík er ekki hæsta lið deildarinnar en hafa náð að stilla saman strengi sína frábærlega í vetur.
Tindastóll er loksins komið á skrið eftir herfilega byrjun þar sem boðið var uppá allskonar sirkus bæði innan sem utan vallar. Liðið býr yfir frábærri breidd þar sem valin maður er í hverri stöðu. Ungir leikmenn liðsins hafa fengið mörg tækifæri á síðustu árum og er það að skila sér í frábæru liði.

Kanaskipti þessara liða gefa einvíginu ákveðið krydd þar sem Jerome Hill spilar með Keflavík í dag eftir að hafa byrjað tímabilið hjá Tindastól við misgóðar undirtektir. Leikur þessara liða fyrir stuttu var mikil skemmtun og var hitinn mikill. Þrátt fyrir mismunandi stöðu þessara liða í deildinni hafði Tindastóll sigur í báðum leikjum þeirra á tímabilinu.

Ljóst er að það verður stuð, hiti og umfram allt læti í þessu einvígi og verður að teljast miklar líkur á að það verði spilaðir fimm leikir.

Leikur 1 Fimmtudagur – 17. mars kl. 19:15 – Keflavík – Tindastóll

Leikur 2 Sunnudagur – 20. mars kl. 19:15 – Tindastóll – Keflavík

Leikur 3 Miðvikudagur – 23. mars kl. 19:15 – Keflavík – Tindastóll

Leikur 4 Mánudagur – 28. mars kl. 19:15 – Tindastóll – Keflavík (ef þarf)

Leikur 5 Fimmtudagur – 31. mars kl. 19:15 – Keflavík – Tindastóll (ef þarf)

Keflavík

Tölfræði líklegs byrjunarliðs:

Magnús Már Traustason – 10,1 stig, 3,6 fráköst, 0,9 stoðsendingar og 11,8 framlagsstig

Guðmundur Jónsson – 10,1 stig, 4,1 fráköst, 2,2 stoðsendingar og 9,9 framlagsstig

Jerome Hill (hjá Keflavík) – 20,7 stig, 11,6 fráköst, 4,9 stoðsendingar og 30,7 framlagsstig

Reggie Dupree – 11,9 stig, 4,5 fráköst, 2,2 stoðsendingar og 13,4 framlagsstig

Valur Orri Valsson – 12,9 stig, 4,2 fráköst, 5,5 stoðsendingar og 15,2 framlagsstig

Hvað þarf Keflavík að gera til að vinna Tindastól?

Þurfa að finna Keflavíkurhrokann og stemmninguna sem var svo ofboðslega sterkur fyrir áramót. Ekkert lið á landinu hefur jafn óbilandi trú á eigin hæfileikum og mun það koma Keflavík langt. Umfram allt þarf Puma-sveitin að mæta til leiks svo Sauðkrækingar vinni ekki fullnaðasigur í stúkunni eins og þeim einum er lagið. Ef Keflavík spilar bara sinn leik, heldur einbeitinu og eru með hausinn rétt skrúfaðann á er þeim allir vegir færir.

Mikilvægasti leikmaður?

 

Magnús Þór Gunnarsson mun líklega ekki skila stærstu tölfræðilínu einvígisins en Keflavíkurhjartað sem maðurinn hefur mun vera gríðarlega mikilvægt. Hann hefur fengið það hlutverk að koma inn af bekknum í vetur og er ekki ónýtt að hafa leikmann af hans kaliberi í því verkefni. Fáránlegu, ótímabæru þriggja stiga skotin hans detta alltaf ofan í og þau geta snúið leikjum við á örskotstundu.

Tindastóll

Tölfræði líklegs byrjunarliðs:

Myron Dempsey – 16 stig, 5 fráköst, 1 stoðsending, 16 framlagsstig

Pétur Rúnar Birgisson – 9,6 stig, 3,5 fráköst, 5,1 stoðsending, 12 framlagsstig

Darrel Lewis – 20,7 stig, 6,2 fráköst, 4 stoðsendingar, 21,5 framlagsstig

Helgi Rafn Viggósson – 8,5 stig, 6,9 fráköst, 1,9 stoðsendingar, 12,5 framlagsstig

Viðar Ágústsson – 4,9 stig, 3 fráköst, 1 stoðsending, 6,4 framlagsstig. 

Hvað þarf Tindastóll að gera til að vinna Keflavík?

Tindastóll þarf að mæta hörku Keflavíkur með enn meiri hörku. Liðið sýndi það undir lok tímabilsins að aggresíva vörnin þeirra getur verið verulega óárennileg þegar allt er eðlilegt. Breidd liðsins er mikil og inniheldur bekkurinn þá Helga Margeirs, Flake, Ingva Rafn og fleiri, allir geta þeir breytt leiknum og þurfa að fá svigrúm til þess. Stuðningsmenn Tindastóls verða rosalega mikilvægir þar sem þeir hafa verið frábærir síðustu ár og unnið flestar stúkur landsins.

Mikilvægasti leikmaður?

Rauðvínið sjálft – Darrel Lewis verður mikilvægur fyrir liðið. Hefur ekki verið sérstaklega stöðugur í vetur en ef hann kemst í gang ofboðslega erfitt að sigra þetta Tindastólslið. Auk þess fer tímabilunum fækkandi hjá þessum frábæra leikmanni sem gæti aukið viljann á að vinna titilinn stóra.

 

Texti / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -