spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaVarnarleikur Keflavíkinga tryggði þeim sigur

Varnarleikur Keflavíkinga tryggði þeim sigur

Keflavík lagði Hauka að velli 54-65 í Domino´s deild kvenna. Var þetta fyrsti heimaleikur kvennaliðs Hauka í nýja húsinu þeirra Ólafssal. Í síðustu umferð unnu Haukar Skallagrím í hörkuleik í Borgarnesi og Keflavíkingar töpuðu fyrir KR í hörkuleik vestur í bæ.

Gangur leiksins:
Gestirnir byrjuðu mun betur í Hafnarfirðinum og skoruðu fyrstu fjögur stigin. Haukar jöfnuðu með tveimur körfum og var það í síðasta sinn sem var jafnt í leiknum. Keflavíkingar keyrðu upp muninn jafnt og þétt í fyrri hálfleik. Pressuvörnin þeirra gerði Haukum lífið erfitt sem átti erfitt með að koma boltanum upp völlinn. Þegar það tókst var mikið fát á sóknaraðgerðum liðsins sem fékk fá góð skot. Staðan í hálfleik var 20-41 gestunum í vil.

Í seinni hálfleik lifnaði aðeins yfir Haukastúlkum og þó þær áttu enn í erfiðleikum með pressuvörn Keflvíkinga þá fóru þær að berjast meir og leggja sig fram. Söxuðu þær jafnt og þétt á forskotið þó að gestirnir væru ávallt í bílstjórasætinu. Breyttu þær stöðunni úr 22-50 í 34-50 og var smá kraftur komin í heimastúlkur. En á lokaskot þriðja leikhluta átti Daniella Morillo sem var flautuþristur lengst utan af velli og var það lýsandi fyrir leikinn. Leiddu gestirnir með 17 stigum fyrir lokaleikhlutann 36-53.

Í loka leikhlutanum reyndu Haukar eins og þær gátu að minnka muninn en öflug vörn Keflavíkinga hélt þeim fjarri og fór svo að Keflavík vann sanngjarnan sigur 54-65.

Tölfræðin lýgur ekki:
Það var miklu meiri grimmd í leik Keflvíkinga í kvöld. Þær tóku fleiri sóknarfráköst og pressuvörn þeirra lét Haukana kasta boltanum ítrekað frá sér og oft út af. Skotnýting beggja liða var afleit en grimmd Keflvíkinga gaf þeim fleiri skot og komust þær oftar á línuna. Þegar lið fá mun fleiri tækifæri til að skora þá vinnur það oftast.

Hetjan:
Í raun var það varnarleikur Keflvíkinga sem stóð upp úr hjá þeim í leiknum. En sá einstaklingur sem hafði sig mest frammi var Daniella Morillo. Hún var með ótrúlegar tölur en hún skoraði 33 stig og tók 20 fráköst.

Samantekt:
Vörn Keflavíkinga lagði grunn að sigrinum og þrátt fyrir áhlaup Hauka í seinni hálfleik var sigur Keflvíkinga aldrei í hættu og betra liðið vann.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -