spot_img
HomeFréttirVarnarleikur Fjölnis batt endi á sigurgöngu Þórs

Varnarleikur Fjölnis batt endi á sigurgöngu Þórs

Þórsarar frá Akureyri höfðu unnið alla þrjá leiki sína í 1. deildinni þegar þeir fóru í heimsókn í Grafarvoginn þar sem Fjölnismenn tóku á móti þeim. Fjölnir hafði sigrar tvo leiki og tapað einum fyrir þennan leik og því ljóst að um mikilvægan leik var að ræða fyrir bæði lið.

 

Fjölnir hóf leik af miklum krafti. Voru grimmari í vörn og náðu að halda Þór í aðeins 15 stigum í 1. fjórðung. Hlutverkin snérust svo við í 2. hluta þegar Þór snéri vörn í sókn og náði að saxa muninn niður þar til þeir komust yfir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, 36-39.

 

Í upphafi seinni hálfleiks léku Fjölnismenn fantagóðan körfubolta. Létu boltann ganga vel í sókn þar til opið skot fannst og settu þeir 4 af 6 skottilraunum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna niður. Þeir nýttu hins vegar færi sín innan teigs fremur illa en náðu samt að skora 1,21 per sókn. 

 

Sóknarleikur Þórs gekk ekki eins smurt. Ótímabær skot og stuttar sóknir einkenndu leik liðsins í seinni hálfleik. Vörn Fjölnismanna náði að ýta Þór út úr öllum sínum aðgerðum og var eins og norðanmenn ætluðu að klára leikinn með stökkskotum þrátt fyrir að vera ekki að finna fjölina.

 

Fjölnir hélt sínu striki, spilaði þétta vörn og setti niður stóru skotin þegar á reyndi. Strákarnir úr Grafarvogi innsigluðu svo sigurinn 80-72 með agaðri spilamennsku og smá hjálp frá Þór sem fleygði boltanum út af í afar mikilvægri sókn í lokin. 

 

Colin Pryor átti frábæran leik fyrir Fjölni með 27 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar. Þar að auki stal hann 3 boltum og varði 1 skot. Egill Egilsson bætti við 24 stigum og 11 fráköstum en hann skaut 5/9 í þristum. Danero Thomas leiddi Þór með 24 stig, 12 fráköst og Tryggvi Hlinason bætti við 17 stigum 10 fráköstum, auk 4 varðra skota.

 

Fjölnir-Þór Ak. 80-72 (21-15, 15-24, 24-20, 20-13)
Fjölnir: Collin Anthony Pryor 27/13 fráköst/5 stoðsendingar, Egill Egilsson 24/11 fráköst, Róbert Sigurðsson 16/6 fráköst, Garðar Sveinbjörnsson 9/4 fráköst, Þorgeir Freyr Gíslason 2, Árni Elmar Hrafnsson 2, Guðjón Ágúst Guðjónsson 0, Smári Hrafnsson 0, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 0, Helgi Hrafn Halldórsson 0, Bergþór Ægir Ríkharðsson 0/5 fráköst, Valur Sigurðsson 0.
Þór Ak.: Danero Thomas 24/12 fráköst, Tryggvi Snær Hlinason 17/10 fráköst/4 varin skot, Þröstur Leó Jóhannsson 10/4 fráköst/5 stoðsendingar, Andrew Jay Lehman 10/6 fráköst, Ragnar Helgi Friðriksson 9/4 fráköst, Sindri Davíðsson 2, Elías Kristjánsson 0, Svavar Sigurður Sigurðarson 0, Einar Ómar Eyjólfsson 0, Arnór Jónsson 0, Jón Ágúst Eyjólfsson 0.

 

Myndasafn: Bára Dröfn

 

Mynd: Colin Pryor átti frábæran leik fyrir Fjölni í kvöld. (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -