spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaValur tekur forystuna gegn Þór

Valur tekur forystuna gegn Þór

Þór tók á móti Val í fyrsta leik liðanna í 8 liða úrslitum Bónus deildar kvenna í körfubolta í leik sem fram fór í íþróttahöllinni. 

Annan leikinn í röð mætir Þór laskað til leiks en liðið saknaði fjögurra leikmanna en þrjár þeirra glíma við meiðsli og ein átti ekki heimangengt  í kvöld. Esther Fokke hefur verið afar drjúg í vetur og með 17,5 stig að meðaltali í leik, Natalia Lalic er með 9,8 stig að meðaltali og Hrefna Ottósdóttir 4,4 stig. Og enn og aftur tekur Heiða Hlín aðstoðar þjálfari fram skóna og skilaði tæpum 5 mínútum.

En að leiknum sjálfum sem var í heildina hin besta skemmtun, leikurinn bauð upp á allt sem  góður körfubolti hefur upp á að bjóða og áhorfendur sem voru ríflega 200 héldu uppi gríðarlegri stemningu allt frá fyrstu mínútu þar til yfir lauk. 

Fyrsti leikhluti var jafn og liðin skiptust á að leiða með tveim til þremur stigum en af leikhlutanum loknum hafði Þór 4 stiga forskot 28:24. Ljóst var á leik beggja liða að mikið var undir enda mikil barátta í báðum  liðum. Þór leiddi framan af annars leikhluta með 1.-5. stiga forystu en í tvígang náðu Valskonur að jafna 36:36 um miðja leikhlutann og aftur 39:39. Þegar þrjár mínútur lifðu leikhlutans komst Valur yfir 39:40 og svo 39:42. Þarna náði Þór aftur vopnum sínum og það sem eftir lifði leikhlutans skoraði Þór 10:2 og vann leikhlutann með einu stigi og staðan í hálfleik 49:44 Þór í vil.

Í liði Þórs var Eva Wium komin með 16 stig í hálfleik, Amandine með 15 og Maddie 9. Hjá Val var Alyssa komin með 14 stig, Jiselle 8, Sara 6 og Ásta 5.

Eins og leikurinn hafði þróast í fyrri hálfleiknum máttu áhorfendur eiga von á áframhaldandi spennu í leiknum með tilheyrandi skemmtun. 

En Þórsliðið kom illa stemmt til leiks í síðari hálfleik og þegar liðið var búið að skora sín fyrstu stig í síðari hálfleiknum af vítalínunni 51:44 hrökk allt í baklás hjá heimakonum. Valskonur gengu á lagið og raðaði niður stigunum og fyrr en varði voru sunnan konum komnar með 10 stig forskot 53:63. Þessi kafli átti eftir að reynast Þórsliðinu þungur baggi enda liðið með þunnskipaðan varamannabekk og mikið álag á 5 lykilmenn  liðsins, sem byrjuðu leikinn. 

En Þórsarar eru ekki þekktir fyrir það að gefast upp og þegar innan um mínúta var eftir af þriðja leikhluta var munurinn aðeins eitt stig 66:67 og aftur komin spenna í leikinn og hann aftur orðin galopinn. Valur náði að bæta tveimur stigum við á loka sekúndum leikhlutans og leiddu með þrem stigum þegar lokakaflinn hófst 66:69.

Það sem eftir lifði leiks leiddu Valskonur með allt að 11 stigum 72:83 þegar sex mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Hér varð aftur smá viðsnúningur í leiknum þar, sem Þórsarar fórnuðu sér í alla bolta og staðráðnar í að hleypa spennu í leikinn og freista þess að ná aftur vopnum sínum. Það tókst þeim ágætlega því þegar 1:40 voru eftir var munurinn aðeins eitt stig 86:87. Þegar hálf mínúta var eftir bættu gestirnir við tveim stigum af vítalínunni 86:89. En þarna virtust Þórsstúlkur einfaldlega orðnar þreyttar og þótt þær gerðu allt sem þær gátu tókst þeim ekki að minnka muninn en gestirnir bættu við þremur stigum og lönduðu 6 stiga sigri 86:92. 

Þar með tók Valur forystuna í þessari rimmu 1:0 og liðin mætast aftur á heimavelli Vals laugardaginn 5. apríl og hefst leikurinn klukkan 19:15.  

Gangur leiksins eftir leikhlutum 28:24 / 21:20 (49:44) 17:25 / 20:23 = 86:92

Framlag leikmanna Þórs: Eva Wium 26/4/0, Amandine 25/4/4, Maddie 15/17/8, Hanna Gróa 10/5/2, Emma Karólína 10/1/2. Að auki spiluðu Heiða Hlín og Katrín Eva en þeim tókst ekki að skora að þessu sinni. 

Framlag Valskvenna: Alyssa Marie 30/8/5, Dagbjört Dögg 16/3/2, Jiselle Elizabeth 15/3/4, Ásta Júlía 13/11/4, Sara Líf 8/13/0, Guðbjörg 3/4/0, Anna María 2/1/1.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir / Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -