Íslands-og bikarmeistarar Vals eru stórhuga fyrir komandi átök í Dominos deild kvenna. Liðið sem vann alla titla sem í boði voru á nýliðinni leiktíð og tapaði einungis einum leik í úrslitakeppninni ætlar sér enn stærri hluti.
Orðrómur hefur verið uppi um að liðið hafi hug á að taka þátt í evrópukeppni á næstu leiktíð. Grímur Atlason stjórnarmaður Vals staðfesti þennan orðróm þegar Karfan ræddi við hann fyrr í dag.
Valsarar telja það vera næsta skref í uppbyggingu liðsins en liðið vann sinn fyrsta titil á þessu ári eftir nokkra ára veru í efstu deild. Valur hafi hug á að setja þann metnað í starfið að ná enn lengra en umgjörðin í kringum liðið hefur verið mjög góð samkvæmt Grími.
Það sé því ljóst að stefnan sé sett á evrópukeppni á næsta ári. Umsóknarferlið hefst í sumar og verður spennandi að sjá hvort íslenskt lið verði í evrópukeppni. Haukar tóku síðast þátt í evrópukeppni kvenna árið 2004 og 2005.