Valur gekk frá samningnum við tvær ungar körfuknattleikskonur og munu þær spila með liðinu í Dominos deild kvenna á næsta tímabili.
Þetta eru þær Elín Sóley Hrafnkelsdóttir og Elfa Falsdóttir sem koma frá uppeldisfélögum sínum. Elín Sóley kemur frá Breiðablik þar sem hún spilaði í 1. deild á síðasta tímabili. Þar skilaði hún 12 stigum og 7 fráköstum að meðaltali í leik og var mikilvægur hlekkur í liði blika.
Hún hefur nú ákveðið að taka stökkið uppí Dominos deildina ásamt Elfu Falsdóttur sem kemur frá Keflavík. Þar spilaði hún að meðaltali 14 mínútur í leik auk þess að spila stórt hlutverk í stúlknaflokki félagsins.
Elín Sóley spilar sem framherji og Elfa sem bakvörður en báðar eru þær í U-18 landsliði Íslands sem er á leið til Bosníu þessa dagana.
Myndir / Davíð Eldur
Frétt / Ólafur Þór Jónsson