Leikstjórnandinn Valur Orri Valsson gengur á nýjan leik til liðs við Keflavík og mun leika með liðinu það sem eftir er á þessu tímabili. Staðfesti leikmaðurinn þetta við Körfuna fyrr í dag.
Leikmannaglugginn á Íslandi lokaðist í endaðan janúar, en þar sem að Valur hefur verið í háskólaboltanum, þá er hann ennþá skráður í það félag sem hann var hjá áður en hann fór út, Keflavík.
Valur hefur síðastliðin ár leikið með Florida Tech Pardusdýrunum í bandaríska háskólaboltanum, en hann lék síðast með Keflavík tímabilið 2015-16. Þá skilaði hann 13 stigum, 5 fráköstum og 6 stoðsendingum að meðaltali í leik.
Mun Valur vera að klára tímabil sitt með Pardusdýrunum þessa vikuna, en síðasti leikur hans er komandi miðvikudag. Samkvæmt honum mun hann lenda á Íslandi á laugardagsmorgun og verður því mögulega í hóp Keflavíkur sem mætir Haukum í Dominos deildinni á sunnudag.