spot_img
HomeFréttirValur opnaði tímabilið vel gegn Breiðablik

Valur opnaði tímabilið vel gegn Breiðablik

Valur hóf tímabilið með heimaleik á móti nýliðunum í efstu deild kvenna, Breiðablik. Leikurinn fór 87-63, Valsstúlkum í vil.

Sama hvað spárnar segja þá veit engin hvað mun gerast fyrr en leikar hefjast. Bæði lið byrjuðu með spennustigið aðeins vanstillt sem að sýndi sig í að lítið var skorað fyrstu mínúturnar. Blikar skoruðu ekki fyrr en eftir að nokkrar mínútur voru liðnar og þær 6 stigum undir. Þá byrjuðu hlutirnir að ganga og liðin hófu brátt að skiptast á forystunni. Ivory Crawford, sem lenti bara í gær, átti flottan fyrsta leikhluta þrátt fyrir að kom sér snemma í villuvandræði og þurfti að skipta snemma út af. Eftir fyrsta leikhluta hafði hún skorað 8 stig og virtist til alls líkleg. Í lok fyrsta leikhluta hafði Valur aðeins eins stigs forskot, 17-16.

Næsti leikhluti byrjaði ekki vel hjá Crawford, en hún fékk dæmda á sig sóknarvillu eftir tæpar 2 mínútur og þurfti því að skipta út af aftur. Sókn Breiðabliks fór aðeins að hökta og Valur náði forystunni og að breikka muninn í 5 stig. Þá tók Hildur Sigurðardóttir leikhlé og vildi ræða aðeins við stelpurnar sínar. Þær grænu komu beittari út úr leikhléinu og náðu að saxa á muninn þrátt fyrir að erlendi leikmaður þeirra næði að næla sér í fjórðu villuna sína. Nýliðarnir og Valskonurnar fóru inn í búningsklefana í hálfleik í stöðunni 38-36, heimamönnum í vil.

Darri Freyr Atlason þurfti að finna leið til að koma Völsurum í gang þannig að hann lét þær byrja í pressu í seinni hálfleik og þær náðu að láta Blika taka léleg skot og gefa nokkrar slæmar sendingar. Á sama tíma fóru heimasæturnar loks almennilega í gang og náðu að vinna fjórðunginn með 12 stiga mun, 27-15. Þá var staðan orðin 68-51, ekki óyfirstíganlegt en Kópavogsstelpurnar þurftu að láta hendur standa fram úr ermum til að komast aftur inn í leikinn. 

Það fór ekki betur en svo að Valskonur hófu seinasta leikhlutann á að skora 7 stig í röð og erlendur leikmaður Blika fékk seinustu villuna sína rétt rúm ein mínúta var liðin af lokafjórðungnum. Liðin skiptust á að skora fram á lokasekúnduna en leiknum lauk 87-63 eins og áður sagði.

Punktahæstar á Hlíðarenda í kvöld voru þær Alexandra Petersen og Guðbjörg Sverrisdóttir í liði Vals. Lexi, eins og hún er víst kölluð, skoraði 23 stig, tók 8 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal 4 boltum. Guðbjörg var mjög afkastamikil í kvöld, en hún tók aðeins 8 skot utan af velli og 3 vítaskot og lauk leik með 17 stig (87,5% skotnýting, 7/8 úr skotum) og 8 fráköst. Hjá Blikum var Ivory Crawford stigahæst með 17 stig þó hún hafi aðeins spilað tæpar 20 mínútur. Isabella Ósk Sigurðardóttir var með 8 stig, 12 fráköst, 5 stuldi og 4 varin skot, en hún var framlagshæst með Blikastelpna með 17 framlagspunkta. 

Það sem skildi liðin að var skotnýtingin, en Valur hitti úr helmingi allra skota sinna utan af velli (35/68, 51% skotnýting) á meðan að Breiðablik hittu einungis úr einu af hverjum þremur skotum utan af velli (26/76, 34% skotnýting). Valur frákastaði einnig betur (54 fráköst gegn 36 hjá Blikum) þannig að þrátt fyrir það að tapa 10 fleiri boltum en gestirnir (25 gegn 15 tapaðir boltar) þá kom það ekki að sök.

Valur fóru hægt af stað í leiknum en þær hafa augljóslega mjög sterkan hóp sem getur spilað vörn og hlaupið með hvaða liði sem er. Breiðablik kom skemmtilega á óvart í leiknum, en þær gáfu ekkert eftir og spiluðu á köflum mjög flottan körfubolta. Þær gætu stolið þó nokkrum leikjum í vetur ef að lið mæta ekki undirbúin til leiks gegn þeim. Valsarar voru þó að þessu sinni sterkari og gætu valdið efstu liðunum talsverðum vandræðum.

Fréttir
- Auglýsing -