spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaValur náði þrennunni: Bikar-, deildar- og Íslandsmeistarar

Valur náði þrennunni: Bikar-, deildar- og Íslandsmeistarar

Valur gerði í kvöld út um Keflavík í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn tímabilið 2018-2019. Leikurinn var aldrei í hættu og Valsarar sigldu 87-64 sigri í höfn án teljandi vandkvæða.

Keflvíkingar mættu nokkuð beittar á fyrstu fimm mínútunum og náðu fimm stiga forystu. Það virtist síðan einfalda slokkna á þeim og vörn Valsstúlkna lokaði á allt hjá gestunum. Á sama tíma áttu Valsarar ekki í teljandi vandræðum með að skora og skiluðu ellefu stigum seinni fimm mínútur fyrsta leikhlutans. Staðan var því 19-13 eftir fyrstu tíu mínúturnar.

Skotnýting Keflavíkur hafði ekki verið upp á marga fiska í fyrsta leikhluta en fór algjörlega í vaskinn í þeim næsta. Sókn virtist stöm og engin þorði að taka af skarið og skjóta boltanum. Þessu má þakka vörn Vals sem drap allt sóknarflæði Keflvíkinga. Til merkis um það má nefna að Sara Rún Hinriksdóttir skoraði aðeins tvö stig á þeim þrettán mínútum sem hún var inn á í fyrri hálfleik. Bilið breikkaði á liðunum og í hálfleik var staðan 47-27.

Gestirnir komu beittir inn í seinni hálfleik og náðu að keyra upp hraðann í leiknum með þéttri vörn og hraðaupphlaupum. Fyrstu fimm mínúturnar skoruðu þær tólf stig gegn tveimur hjá Val og skyndilega var aðeins tíu stiga munur! Þá tók Heather Butler við sér og setti nokkrar körfur til að reyna bægja Keflavík frá. Keflavík hélt hins vegar áfram að saxa og þegar munurinn var orðinn níu stig tók Darri Freyr sitt fyrsta leikhlé í leiknum. Það reyndist heilladrjúg ákvörðun því Valsstúlkur hertu sig skoruðu ellefu stig gegn þremur hjá Keflavík fram að leikhlutaskiptum. Staðan 65-48.

Það var heldur lítið að frétta af fjórða leikhlutanum, Valur hélt áfram að rúlla meðan Keflavík gat ekki brotist út úr vörn heimastúlkna og tekið áhlaup. Tapaðir boltar og lítið sjálfstraust hjá gestunum innsiglaði úrslitin sem fóru að lokum svo að staðan varð 87-64.

Íslandsmeistarar 2019!

Valur er þá Íslandsmeistarar 2019! Þetta var ótrúleg sigurganga hjá þeim eftir að Helena Sverrisdóttir gekk í raðir þeirra í lok nóvember. Valsstúlkur hafa síðan þá unnið nítján af tuttugu deildarleikjum sínum (þ.a. átján í röð), unnið bikarmeistaratitilinn, unnið deildarmeistaratitilinn, unnið KR í undanúrslitunum og sópað Keflavík í úrslitaeinvíginu. Á þessari sigurgöngu hafa þær aðeins tapað tvisvar gegn KR og engu öðru liði og náðu á einum kafla að vinna 22 leiki í röð! Þær hafa unnið 27 leiki af seinustu 29! Þvílík liðsheild sem er vel að þessum sigri kominn og þessari sögulegu niðurstöðu. Þrennan í húsi; bikar-, deildar- og Íslandsmeistarar! Til hamingju, Valur!

Lykillinn

Helena Sverrisdóttir var enn og aftur frábær fyrir Valsliðið í þessum lokaleik. Hún skoraði 25 stig, tók þrettán fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Heather Butler var sömuleiðis reffileg með 25 stig, sjö stoðsendingar og fjóra stolna bolta.

Hjá Keflavík var Bryndís Guðmundsdóttir stigahæst með fimmtán stig. Brittanny Dinkins fylgdi fast á hæla hennar með fjórtán stig og bætti þar að auki við ellefu fráköstum og sex stoðsendingum.

Kjarninn

Keflavík hafði einfaldlega ekki roð við Val í kvöld. Þrátt fyrir frækinn leik tvö í Blue-höllinni sem tapaðist með grátlegum hætti þá gátu Suðurnesjastelpurnar ekki komið til baka eftir hann og unnið þennan. Þær virtust óöruggar og höfðu fá svör sóknarlega við vörn Valsara. Jón Guðmundsson þjálfari gat ekki aðlagað sig að Val. Jafnvel þó að svo hefði verið var ekki víst að Keflavíkurstelpurnar hans gætu hafa framfylgt því gegn jafn öflugu og vel skipulögðu liði og Darri Freyr Atlason náði að setja saman.

Tölfræði leiksins

Myndasöfn

Viðtöl

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson

Viðtöl / Sigurður Orri Kristjánsson

Myndir / Bjarni Antonsson og Þorsteinn Eyþórsson

Fréttir
- Auglýsing -