Valur tók á móti Stjörnunni í Valshöllinni í dag í Domino's deild kvenna. Síðasta viðureign liðanna í deildinni sem fram fór í Ásgarði í lok október var hörkuspennandi, en Valur fór þar með þriggja stiga sigur af hólmi eftir að Stjarnan hafði leitt megnið af leiknum. Stjörnustúlkur áttu því harm að hefna en ljóst var að róðurinn gæti orðið þungur fyrir þær vegna meiðsla Chelsie Schweers sem skilað hefur þeim rúmlega 33 stigum og 12 fráköstum að meðaltali í leik í vetur.
Valur náði forystu strax á upphafsmínútum leiksins og lét hana aldrei af hendi þrátt fyrir góð áhlaup frá Stjörnustúlkum. Karisma Chapman byrjaði leikinn sterkt fyrir Val og skoraði fyrstu fimm stig hans áður en Bryndís Hanna svaraði fyrir Stjörnuna með þriggja stiga skoti vel fyrir utan þriggja stiga línuna. Staðan eftir 1. leikhluta 21-15 fyrir Val. Karisma Chapman leiddi þær í stigaskori með 8 stig en hin stigin dreifðust vel á milli leikmanna. Hjá Stjörnunni voru einungis Ragna Margrét og Bryndís Hanna komnar á blað en það virtist vanta upp á einbeitinguna hjá Stjörnustúlkum í sóknarleiknum og of margar sendingar rötuðu ekki rétta leið hjá þeim.
Annar leikhluti spilaðist mun jafnar en sá fyrsti og vann Stjarnan hann 17-19 þrátt fyrir þau 9 sóknarfráköst sem Valur tók í leikhlutanum. Samt sem áður var ljóst að ef Stjarnan ætlaði að vinna upp muninn og freista þess að vinna leikinn yrðu þær að stíga betur út í seinni hálfleik og rífa niður fráköstin.
Hallveig Jónsdóttir opnaði síðari hálfleik með tveimur stigum utan úr teig fyrir Val og jók forystu þeirra í 8 stig. Sóknarleikur Vals í upphafi 3. leikhluta var ekki af sama gæðaflokki og hann hafði verið í fyrri hálfleik og töpuðu þær boltanum ítrekað. Stjarnan minnkaði muninn niður í tvö stig í stöðunni 47-45, þegar Ragna Margrét setti tvö stig úr hraðaupphlaupi og leikurinn því galopinn. Þá tók við góður kafli hjá Val þar sem þær skoruðu átta stig í röð og fór svo að þær leiddu eftir þriðja leikhluta með 14 stigum, 61-47. Stjörnustúlkur reyndu allt hvað þær gátu til að ná Val í fjórða leikhluta en höfðu ekki erindi sem erfiði. Valsstúlkur sigldu heim 14 stiga sigri, 78-64, í hörkuleik.
Karisma Chapman átti stórleik í liði Vals, var með 24 stig, tók 17 fráköst, gaf 8 stoðsendingar og endaði með 46 framlagsstig. Hallveig Jónsdóttir skoraði mikilvægar körfur fyrir Val og endaði með 17 stig auk þess sem Dagbjört Samúelsdóttir setti 11 stig og gaf 5 stoðsendingar. Hjá Stjörnunni átti Ragna Margrét Brynjarsdóttir mjög góðan leik og skilaði 24 stigum og 12 fráköstum, Bryndís Hanna Hreinsdóttir bætti við 16 stigum og Margrét Kara Sturludóttir var með 14 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar.
Valur 78 – 64 Stjarnan (23-15, 17-19, 21-13, 17-17)
Stigaskor Vals: Karisma Chapman 24 stig/17 fráköst/8 stoðsendingar, Hallveig Jónsdóttir 17 stig, Dagbjört Samúelsdóttir 11 stig/5 stoðsendingar, Bergþóra Holton Tómasdóttir 8 stig/4 stoðsendingar, Sóllilja Bjarnadóttir 8 stig, Guðbjörg Sverrisdóttir 6 stig/7 stoðsendingar, Margrét Ósk Einarsdóttir 3 stig, Jónína Þórdís Karlsdóttir 1 stig, Ragnheiður Benónísdóttir 0 stig/5 fráköst, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 0 stig, Regína Ösp Guðmundsdóttir 0 stig, Helga Þórsdóttir 0 stig.
Stigaskor Stjörnunnar: Ragna Margrét Brynjarsdóttir 24 stig/12 fráköst, Bryndís Hanna Hreinsdóttir 16 stig, Margrét Kara Sturludóttir 14 stig/9 fráköst/6 stoðsendingar, Eva María Emilsdóttir 5 stig, Erla Dís Þórsdóttir 3 stig, Kristín Fjóla Reynisdóttir 2 stig/8 stoðsendingar, Sigríður Antonsdóttir 0 stig, Bára Fanney Hálfdánardóttir 0 stig, María Björk Ásgeirsdóttir 0 stig, Hafrún Hálfdánardóttir 0 stig.
Mynd: Dagbjört Samúelsdóttir átti góðan leik fyrir Val í dag, skoraði 11 stig og gaf 5 stoðsendingar.