Stjörnumenn tóku á móti Val í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Subway deildar karla í gærkvöldi. Valsmenn unnu fyrsta leik liðanna í Origo höllinni með fimm stiga mun og gátu því komið sér í 2-0 forystu, á meðan bikarmeistararnir freistuðu þess að jafna einvígið með sigri.
Stjörnumenn byrjuðu leikinn umtalsvert betur og virtust hreinlega ætla að valta yfir gestina úr Hlíðunum. Vörn Garðbæinga var gríðarsterk, og voru Valsarar virkilega óöruggir í öllum sínum sóknaraðgerðum. Hinum megin á vellinum voru þeir Shawn Hopkins og Hilmar Smári Henningsson verulega heitir fyrir utan þriggja stiga línuna og höfðu heimamenn þrettán stiga forskot að loknum fyrsta fjórðungi, 25-12.
Það forskot varði hins vegar ekki lengi. Valsmenn komu vörninni sinni í gang og þvinguðu hvern tapaðan boltann af fætur öðrum hjá heimamönnum. Valur byrjaði leikhlutann á 6-22 áhlaupi og voru því fljótlega komnir yfir í leiknum, eftir hreint afleita byrjun. Staðan 43-45 í hálfleik, gestunum í vil.
Í seinni hálfleik skiptust liðin á að hafa forystu í leiknum. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var jöfn, 76-76, og þurfti því að framlengja.
Í framlengingunni virtust Valsmenn ætla að hafa sigurinn þegar þeir komust fimm stigum yfir, 82-87, þegar um mínúta lifði af leiknum. Stjörnumenn voru hins vegar ekki á þeim buxunum, og eftir tvö víti frá Robert Turner III og þrist frá Hlyni Bæringssyni voru leikar aftur orðnir jafnir, 87-87. Því þurfti aftur að framlengja.
Í seinni framlengingunni skiptust liðin á að hafa forystuna, en Jacob Calloway kom Val í 91-94 með vítaskoti þegar tæp mínúta lifði af leiknum. Stjörnumenn fengu þá tækifæri til að jafna leikinn þegar um 15 sekúndur voru eftir, og endaði sókna þeirra á því að Callum Lawson braut á David Gabrovsek í þriggja stiga skoti. Gabrovsek fór á línuna og freistaði þess að jafna leikinn, en klikkaði úr fyrsta skotinu. Stjörnumenn þurftu því að treysta á kraftaverk til að ná einhverju út úr leiknum, en varð ekki kápan úr því klæðinu. Valsmenn fóru því með tveggja stiga sigur af hólmi, 92-94, og leiða einvígið 2-0.
Lykillinn
Valsmenn náðu að bíta í skjaldarrendur eftir hræðilegan fyrsta leikhluta og fóru að spila fantagóða vörn í öðrum fjórðungi, sem skilaði þeim mörgum auðveldum körfum. Eftir það var leikurinn í járnum allt til enda, en Valsmenn náðu að setja stór skot þegar mest á reyndi, á meðan Stjörnumenn klúðruðu fjórtán vítaskotum, þ.á.m. í lok venjulegs leiktíma og í lok annarrar framlengingar. Þar skildi einfaldlega á milli.
Bestur
Margir leikmenn áttu góðan leik í gærkvöldi og erfitt að taka einn út fyrir sviga. Callum Lawson var stigahæstur Valsara með 26 stig, en Pavel Eromlinski átti líka frábæran leik með 15 stig, öll úr þristum, auk þess sem Pablo Bertone skilaði flottu framlagi með 19 stig. Hjá Stjörnunni voru Hilmar Smári Henningsson og Shawn Hopkins góðir, Hilmar með 21 stig og Hopkins 19. Þá skoraði Robert Turner 20 stig í liði Garðbæinga, en skotnýting Turners var afleit, 5/23.
Framhaldið
Þriðji leikur liðanna fer fram í Origo höllinni þann 11. apríl klukkan 20:15. Með sigri sópa Valsarar bikarmeisturunum í sumarfrí, en Stjörnumenn geta haldið vonum sínum á lífi með sigri.