Valur sigraði Hauka í níundu umferð Dominos deildar kvenna í Origo höllinni í kvöld 88-72.
Það var skrýtin tilfinning að mæta í Origo höllina í kvöld. Þar mættust liðin sem spiluðu til úrslita á síðasta tímabili en sátu í 6. og 7. sæti deildarinnar fyrir leikinn. Auk þess var Helena Sverrisdóttir mætt í búning Vals en hún er uppalin í Haukum og lyfti Íslandsmeistarabikarnum fyrr á þessu ári í búningi Hauka.
Strax í öðrum leikhluta stungu Valsarar af og komust í forystu sem Haukar náðu aldrei að saxa á að neinu viti. Valsarar með Helenu Sverrisdóttir í broddi fylkingar voru einfaldlega beittari á báðum endum vallarins.
Haukar urðu einfaldlega undir í dag og skorti gæði til að halda í við Valsara. Valur voru sterkari varnarlega en liðið var í fyrstu umferðinni og virðist vera að finna einkenni sín á ný.
Helena Sverrisdóttir er líkt og allir vissu gríðarleg viðbót í lið Vals en hún endaði með 13 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Heather Butler var einnig sterk með 20 stig og þá var Ásta Júlía með 13 stig og níu fráköst.
Hjá Haukum var Lele Hardy með 25 stig og 7 fráköst. Eva Margrét var með 11 stig en liðið varð fyrir því áfalli að missa Sigrúnu Björg Ólafsdóttur útaf meidda í öðrum leikhluta.
Valur komst með sigri uppí fimmta sæti og nálgast úrslitakeppnina óðfluga eftir slaka byrjun á mótinu. Liðið hefur unnið tvo leiki í röð og er farið að líkjast því sem það sýndi í fyrra.
Haukar sitja í sjöunda og næstneðsta sæti deildarinnar. Íslandsmeistararnir hafa tapað sex leikjum í röð og kom síðasti sigurleikur þann 17. október í þriðju umferð.
Viðtöl: