Valur lagði Hauka í Ólafssal í kvöld í oddaleik undanúrslita Subway deildar kvenna, 46-56.
Valur vann einvígi liðanna því 3-2 og mun mæta deildarmeisturum Keflavíkur í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn.
Fyrir leik
Fyrir leik kvöldsins hafði Valur unnið fyrstu tvo leiki einvígis liðanna, en Haukar komið til baka og jafnað metin eftir að hafa í tvígang verið með bakið upp að vegg.
Síðasti leikur liðanna fór fram á fimmtudegi nú fyrir helgina í Origo Höllinni og höfðu Haukar 10 stiga sigur þar sem að Keira Robinson var lykilleikmaður leiksins með 23 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar.
Gangur leiks
Mikið bras var á sónarleik beggja liða í upphafi, þar sem liðin voru með fleiri tapaða bolta og villur dæmdar á sig heldur en stig eftir fyrstu fimm mínúturnar. Fyrsti fjórðungur leiksins ekki mikið fyrir augað, liðin skiptast á fáeinum körfum og er það Valur sem leiðir að honum loknum, 7-8. Áhyggjuefni fyrir bæði lið að villurnar virtust hrannast upp á leikmenn beggja liða, Sólrún Inga Gísladóttir hjá Haukum strax komin með 3 eftir fyrsta og Dagbjört Dögg Karlsdóttir hjá Val með 2 villur.
Þrátt fyrir að vera ekki að spila neitt rosalega vel sóknarlega nær Valur að skapa sér smá forystu í öðrum leikhlutanum. Leiða mest með 8 stigum í fjórðungnum 12-20, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er munurinn 5 stig, 17-22.
Stigahæst fyrir heimakonur í fyrri hálfleiknum var Keira Robinson með 7 stig á meðan að fyrir Val var Ásta Júlía Grímsdóttir komin með 6 stig.
Afskaplega lítið breytist í leik liðanna í upphafi seinni hálfleiksins, þar sem báðum liðum gengur ömurlega að setja stig á töfluna. Valskonur ná þó að halda í forystu sína út leikhlutann, aðallega vegna 6 stiga frá Ástu Júlíu og 5 stigum frá Hildi Björguí leikhlutanum. Munurinn 7 stig fyrir lokaleikhlutann, 29-36.
Í upphafi þess fjórða tekur leikmaður Vals Kiana Johnson það á sig að setja nokkur stig á töfluna og kemur forystu Vals í 16 stig á fyrstu þremur mínútum fjórðungsins, 29-45. Segja má að þetta hafi verið náðarhöggið, því heimakonur í Haukum ná aldrei að komast almennilega aftur inn í leikinn eftir þetta þrátt fyrir álitlegar tilraunir á lokamínútunum. Niðurstaðan að lokum hlutfallslega (miðað við lágt stigaskor) mjög öruggur sigur Valskvenna, 46-56.
Atkvæðamestar
Best í liði Vals í kvöld var Kiana Johnson með 18 stig, 12 fráköst og 9 stoðsendingar. Fyrir Hauka var það Eva Margrét Kristjánsdóttir sem dró vagninn með 10 stigum og 10 fráköstum.
Hvað svo?
Valskonur fá stutt frí fram að úrslitaeinvíginu, en það rúllar af stað komandi miðvikudag 19. apríl í Blue Höllinni í Keflavík.