spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaValur gerði útum vonir Borgnesinga um úrslitakeppnissæti

Valur gerði útum vonir Borgnesinga um úrslitakeppnissæti

Heil umferð fór fram í Dominos deild kvenna í kvöld. Leikið var í 18. umferð og eru línur heldur betur farnar að skýrast. Í Origo höllinni voru það Íslandsmeistarar Vals sem tóku á móti bikarmeisturum Skallagríms.

Gangur leiksins:

Liðin voru jöfn að stigum framan af fyrri hálfleik, allt leit út fyrir æsispennandi leik þar sem lítið virtist skilja liðin að. Staðan í hálfleik var 39-32. Annað var svo uppá teningnum í seinni hálfleik þar sem gæði Vals skinu í gegn. Liðið skoraði 12 stig í röð um lok þriðja leikhluta og gerði útum leikinn. Lokastaðan 80-62 fyrir Val sem heldur í toppsætið.

Atkvæðamestar:

Í liði Vals voru margir leikmenn með gott framlag og stigaskor skiptist jafnt á milli. Hildur Björg var öflug með 14 stig og 9 fráköst. Þá var Ásta Júlía Grímsdóttir frábær með 10 stig og 9 fráköst.

Keira Robinson var að vanda öflugust í liði Skallagríms með 17 stig, 10 fráköst og 4 stoðsendingar. Embla Kristínardóttir átti einnig góðan leik með 16 stig og 9 fráköst.

Hvað næst?

Valsarar eru nú komnar með aðra hendina á deildarmeistaratitilinn en bæði Keflavík og Haukar töpuðu leikjum sínum í kvöld. Næsti leikur liðsins er einmitt gegn Haukum og getur liðið tryggt deildarmeistaratitilinn með sigri.

Skallagrímur getur nú kvatt drauminn um úrslitakeppnissæti þar sem Fjölnir vann góðan sigur í kvöld. Liðið náði ekki að fylgja eftir frábærum árangri síðasta árs og er nú ljóst að einungis þrír leikir eru eftir af tímabilinu fyrir Borgnesinga. Næsti leikur er vesturlandsslagur þegar Skallagrímur fær Snæfell í heimsókn.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -