Nágrannaglíma verður á boðstólunum í Iðu á Selfossi í kvöld þegar FSu tekur á móti toppliði Þórs úr Þorlákshöfn kl. 19:15. Þórsarar eru á toppi deildarinnar ósigraðir og sagði Valur Ingimundarson þjálfari Selfyssinga að leikurinn í kvöld væri gott tækifæri fyrir sína leikmenn og að kanalaust lið FSu myndi gera eins vel og það gæti.
,,Richard Field fór um áramótin til Tékklands og við ákváðum að spila kanalausir út árið og mér finnst við hafa fengið of lítið hrós fyrir þá ákvörðun. Menn eru að tala um að liðið hafi dalað í kjölfar þess að Field hafi farið en þetta er í raun frábært tækifæri fyrir strákana að fá stærra hlutverk. Þeir koma inn í þessi hlutverk hægt og rólega og til lengri tíma litið er þetta gott,” sagði Valur í samtali við Karfan.is.
,,Við erum ánægðir með hópinn svona og ætlum okkur að gera eins vel og við getum kanalausir og það sjá það allir að við erum ekki í sama klassa og lið með þrjá erlenda leikmenn. Eins sést það líka í úrvalsdeildinni hvað íslenskir leikmenn eru farnir að skipta allt of litlu máli svo við erum þrælmontnir af því að spila bara á skólastrákum,” sagði Valur sem sagði taktík kvöldsins ekki vera neitt hernaðarleyndarmál.
,,Mínir menn eru bara að öðlast reynslu svo þetta verður bara gaman hjá okkur, menn eru að fá stærri hlutverk og til þess er leikurinn gerður og því er tækifærið í kvöld, að leika gegn besta liði deildarinnar, bara mjög gott,” sagði Valur sem á dögunum fékk stoðsendingu að norðan þegar Björgvin Jóhannesson gekk í raðir FSu.
,,Ég var feginn því að fá Björgvin sem hefur reynslu enda ungir guttar í FSu og svo er Björgvin líka mikill baráttuhundur,” sagði Valur og uppljóstraði síðan nokkru athyglisverðu í s.b.v. Richard Field. ,,Hann er ekki að finna sig í Tékklandi og er á lausu um þessar mundir en við ákváðum að vera kanalausir það sem eftir lifir leiktíðar en Field hafði áhuga á því að leika hérlendis ef eitthvað byðist.”