Valur lagði Tindastól í kvöld í þriðja leik úrslitaeinvígis liðanna í Subway deild karla, 84-79. Valsmenn því komnir með yfirhöndina í einvíginu 2-1 og þurfa aðeins einn sigur í viðbót til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.
Fyrir leik
Fyrir leik kvöldsins var staðan í einvíginu jöfn 1-1. Fyrsta leikinn vann Valur heima með einu stigi áður en Tindastóll tók annan leikinn nokkuð örugglega í Síkinu. Vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.
Gangur leiks
Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað þar sem liðin skiptast á körfum. Stólarnir ná þó ágætis tökum á leiknum undir lok fyrsta leikhlutans, eru mest 7 stigum yfir, en þegar að fjórðungurinn er á enda er staðan 18-23. Pétur Rúnar Birgisson frábær fyrir Stólana á þessum upphafsmínútum á báðum endum vallarins, með 8 stig á fyrstu 10 mínútunum. Tindastóll opnar annan leikhlutann á 8-0 áhlaupi og fara með 13 stigum yfir í byrjun fjórðungsins. Undir lok fyrri hálfleiksins ganga gestirnir svo enn á lagið og eru 16 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 36-52.
Stigahæstur fyrir heimamenn í fyrri hálfleiknum var Kári Jónsson með 13 stig, en óhætt er að segja að allir aðrir leikmenn Vals hafi verið heillum horfnir sóknarlega þessa fyrstu tvo leikhluta. Fyrir gestina úr Skagafirði var Taiwo Badmus stigahæstur í fyrri hálfleiknum með 16 stig.
Heimamenn gera sig líklega til þess að gera þetta að leik aftur í upphafi seinni hálfleiksins. Ná nokkrum góðum stoppum, en gengur þó frekar erfiðlega að skera niður forystu Tindastóls. Halda þeim þó innan færis fyrir lokaleikhlutann, en staðan eftir þrjá fjórðunga var 57-69.
Valur nær svo að koma muninum inn fyrir 10 stigin í fyrsta skipti í langan tíma í upphafi fjórða leikhlutans með þristi frá Jacob Calloway, 64-72. Heimamenn ganga enn á lagið og eru komnir tveimur stigum frá gestunum þegar rúmar 5 mínútur eru eftir af leiknum, 70-72. Valur nær í framhaldinu að komast yfir og skiptast liðin á körfum fram á lokamínúturnar. Undir lokin nær Valur að hafa yfirhöndina og ná að lokum að vinna leikinn með 5 stigum, 84-79.
Atkvæðamestir
Jacob Calloway var bestur í liði Vals í kvöld með 16 stig og 12 fráköst. Þá skilaði Kristófer Acox 13 stigum og 10 fráköstum.
Fyrir Tindastól var Taiwo Badmus atkvæðamestur með 21 stig, 9 fráköst og Pétur Rúnar Birgisson bætti við 14 stigum og 3 stoðsendingum.
Hvað svo?
Fjórði leikur liðanna er á dagskrá komandi sunnudag 15. maí í Síkinu á Sauðárkróki.
Myndasafn (Márus Björgvin)
Myndasafn (Tjörvi Týr)