spot_img
HomeFréttirValsmenn tryggðu sér heimavallaréttinn (Umfjöllun)

Valsmenn tryggðu sér heimavallaréttinn (Umfjöllun)

21:31

{mosimage}
(Menn tóku vel á því í kvöld)

Valsmenn tryggðu sér heimavallaréttinn í úrslitakeppninni og 2. sætið í 1. deild með 13 stiga sigri á Haukum í kvöld 66-79.  Valsmenn höfðu frumkvæðið lengst um og spiluðu háa pressu sem Haukar voru oft á tíðum í vandræðum með. Eftir önnur úrslit kvöldsins er því ljóst að Valsmenn mæta KFÍ og Haukar mæta Fjölni í úrslitakeppninni um laust sæti í Iceland Express deildinni að ári. Hjalti Friðriksson var stigahæstir í liði Valsmanna með 17 stig og 8 fráköst en næstir voru Alexander Dungal og Ragnar Gylfason með 12 stig hvor. Hjá Haukum var Sveinn Ómar Sveinsson með 19 stig en næstir voru Kristinn Jónasson með 12 stig og Bjarni Konráð Árnason með 11 stig.

Valsmenn pressuðu allan völlinn strax frá upphafsmínútunni. Þeir tóku frumkvæðið og höfðu 3 stiga forskot þegar tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum, 2-5. Haukar svöruðu þó fyrir sig og náðu yfirhöndunni 6-5. Pressa Valsmanna virtist hins vegar fara að hafa áhrif þegar leið á leikhlutan og þegar tvær mínútur voru eftir höfðu þeir fjögura stiga forskot, 9-13. Haukar voru óheppnir með skot en skot sem á góðum degi færu alltaf ofaní voru ekki að detta hjá þeim. Valsmenn áttu svo seinustu 6 stig leikhlutans og höfðu þess vegna 8 stiga forskot þegar flautað var til loka fyrsta leikhluta, 11-19.

{mosimage}
(Gylfi Geirsson var sterkur hjá Val í kvöld með 9 stig og 14 fráköst)

Haukar svöruðu hröðum leik Valsmanna í fyrsta leikhluta í sömu mynt í öðrum sem virtist hafa góð áhrif á þeirra leik. Þegar um það bil fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum var munurinn kominn niður í aðeins 1 stig, 25-26. Haukar voru að leysa sóknarleikinn mun betur í öðrum leikhluta og fóru á tímabili frekar illa með vörn Valsmanna, sem hafði staðið vel í fyrsta leikhluta. Liðin skiptust á að skora næstu mínútur en Valsmenn höfðu þó alltaf frumkvæðið. Valsmenn höfðu fimm stiga forskot þegar lokamínúta annars leikhluta rann upp. Haukar náðu að minnka það niður í 2 stig þangað til Valsmenn náðu því aftur upp í 4 stig, 8 sekúndum fyrir leikslok.  Haukar tóku þá leikhlé til þess að útfæra seinustu sókn leikhlutans. Hún virtist ætla að ganga fullkomnlega upp allt þar til skotið geigaði og tíminn rann út, 32-36.

Valsmenn byrjuðu þriðja leikhluta af krafti, ákafinn í varnarleiknum var aftur til staðar eins og í fyrsta leikhluta og þegar rúmlega þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum var munurinn kominn upp í 11 stig, 32-43. Þegar leikhlutinn var nánast hálfnaður tóku Haukamenn leikhlé í stöðunni 36-48. Haukar svöruðu þó fyrir sig og þegar rúmlega þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum var munurinn kominn niður í 5 stig, 45-50. Valsmenn virtust vera í bullandi vandræðum með að leysa svæðisvörn heimamanna og fyrir vikið tóku stuðningsmenn Hauka við sér. Munurinn varð minnst þrjú stig þegar um það bil ein mínúta var eftir af leikhlutanum. Þegar flautað var til loka leikhlutans stóðu tölur 50-54 Valsmönnum í vil.  

{mosimage}
(Kristinn Jónasson skoraði 12 stig fyrir Hauka)

Valsmenn byrjuðu fjórða leikhluta af krafti og ekki leið á löngu þar til forskot þeirra var aftur komið í 12 stig, 50-62. Valsmenn héldu því forksoti næstu mínúturnar og þegar leikhlutinn var svo gott sem hálfnaður tóku heimamenn leikhlé, 54-69. Haukar virtust vakna til lífsins eftir það og fóru að sækja grimmt á körfuna. Munurinn var kominn aftur niður í 12 stig þegar rúmlega þrjár mínútur voru eftir þrátt fyrir að hafa klikkað úr þremur vítum á örstuttum tíma. Haukar virtust komast á lagið seinustu mínúturnar og skoruðu hvert stigið af öðru úr hraðaupphlaupum. Þegar ein mínúta var eftir var munurinn kominn niður í 8 stig, 66-74. Haukar tóku þá leikhlé og strax eftir það fóru Haukar að brjóta til að senda Valsmenn á línuna. Það gekk hins vegar ekkert hjá Haukum að koma boltanum ofaní og Valsmenn höfðu þess vegna 13 stiga sigur, 66-79.

Umfjöllun: Gísli Ólafsson

Myndir: [email protected]

{mosimage}
(Guðmundur Kristjánsson)

{mosimage}
(Sveinn Ómar Sveinsson)

Fréttir
- Auglýsing -