spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaValsmenn með sýningu í fjórða

Valsmenn með sýningu í fjórða

Í kvöld tóku Valsmenn á móti Keflavík í N1 höllinni, tvö lið sem hafa byrjað brösulega. Bæði lið með einn sigur og tvö töp, bæði liðin hafa unnið Álftanes í framlengdum leik, bæði lið fóru nokkuð létt í gegnum sinn bikarleik. Valsmenn þekktir fyrir sinn góða varnaleik og Keflavíkur hraðlestinn með sinn sóknarþunga. Leikur sem gæti alveg boðið upp á mikla spennu og skemmtilegheit. Það fór svo að leikurinn var mjög jafn og spennandi fyrstu þrjá leikhlutana og sigurinn gat dottið hvenrig sem var. En í fjórða leikhluta var bara eitt lið á vellinum, Valur vann öruggan sigur 104-80

Leikurinn byrjaði frekar rólega þegar kemur að stigaskorun, hittnin ekkert til að hrópa húrra fyrir. Þegar leikhlutinn var hálfnaður var staðan 9-6 fyrir Val. Tveir búnir að skora fyrir hvort lið. Það sem eftir lifði leikhlutans var leikurinn í járnum, hittninn skánaði aðeins, sérstaklega hjá Valsmönnum sem skiluðu þeim fjögurra stiga forystu 25-21.

Áfram hélt þetta að vera jafn leikur í öðrum leikhluta, Valsmenn með örlítið frumkvæði án þess þó að ná einhverri forystu að ráði. Badmus var sem allt i öllu í sóknarleik Valsmanna og var búinn að skora 17 stig af 37 þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður.  Hálfleikurinn kláraðist síðan með geggjaðri flautukörfu frá Kára sem kom Val yfir 44-42. Nokkrir leikmenn týndir í báðum liðum, meðal annars Kristinn Páls hjá heimamönnum og Wendell Green hjá gestunum. Tveir stighæstu leikmenn Keflavíkur voru ekki í byrjunarliðinu.

Seinni hálfleikurinn byrjaði síðan með látum, bæði lið fóru að hitta, Green var mættur og síðan var Kári Jónsson loksins mættur.  Þótt Valsmenn hefðu undirtökin, þá var Keflavík aldrei langt undan og jafnaði leikinn þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum, Igor Maric sýndi snilli sína fyrir utan þriggja stiga línuna og neyddi Valsmenn til að taka leikhlé. Valsmenn leiddu eftir þrjá leikhluta 71-67.

Síðasti leikhlutinn var síðan hnífjafn, liðin skoruðu til skiptis, þegar um sex mínútur voru eftir virtist Wendell Green fá eitthvað tak í bakið og lá óvígur eftir. Þess má geta að Sigurður Péturs spilaði nánast ekkert vegna meiðsla. Valsmenn gengu á lagið og þegar fjórar og hálf mínúta voru eftir henti Pétur Ingvars í sjaldséð leikhlé, enda ellefu stigum undir.  Eitthvað fór það leikhlé út og suður hjá gestunum, eftir eina mínútu tóku Keflavík annað leikhlé. En það var eins og allt sjálfstraust væri horfið og Valsmenn voru nánast með sýningu og skoruðu að vild.  Leikurinn fjaraði út Valsmenn enduðu með stórsigri Íslandsmeistarana 104-80 – Valsmenn unnu fjórða leikhluta 33-13.

Góður iðnarsigur hjá heimamönnum og fara 2-2 á meðan Keflavík þarf að fara í naflaskoðun með 1-3.

Hjá Valsmönnum var Badmus stighæstur með 28 stig og 11 fráköst, byrjaði geysilega vel en það hægðist síðan á honum. Kári Jóns sýndi loksins sitt rétta andlit og setti niður 21 stig og tók einnig 11 fráköst og 7 stoðsendingar, magnaður leikur.  Hjá Keflavík vaknaði Wendell Green í seinni hálfleik og endaði stighæstur með 20 stig og 10 fráköst. Igor Maric var drjúgur og skoraði 17 stig.

Næst á dagsskrá hjá Valsmönnum er að heimsækja Njarðvík á sjálfan hrekkjavökudaginn, 31. október á meðan Keflavík fær KR í heimsókn 1. nóvember.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -