Íslandsmeistarar Tindastóls tóku á móti Valsmönnum í lokaleik 4. umferðar Subway deildar karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Fyrir leikinn voru Stólar taplausir í deildinni en Valur tapaði nokkuð óvænt fyrir Keflavík suður með sjó.
Fyrir leik var ljóst að nokkur brekka var framundan hjá heimamönnum sem höfðu nýverið sagt upp samningi við erlendan leikmann sinn, Stephen Domingo og að auki var orðið ljóst að Pétur Rúnar, Arnar Björnsson og Davis Geks yrðu ekki með í leiknum vegna meiðsla. Treyja Helga Rafns Viggóssonar var hengd upp í Síkinu fyrir leikinn við mikinn fögnuð þéttskipaðra raða áhorfenda sem hylltu Fyrirliðann með söng.
Stólar skoruðu fyrstu stigin og góð stemning var í Síkinu frá upphafi til enda. Valsmenn tóku fljótlega völdin á vellinum og komust í 6-13 með þrist frá Montero um miðjan fyrsta leikhluta. Hann átti eftir að setja nokkra í viðbót þrátt fyrir hljómmikla söngva í Síkinu. Eftir fyrsta leikhlutann var staðan 15-21 fyrir gestina og ljóst að heimamenn áttu í erfiðleikum með að komast að körfunni eins og oft áður gegn sterkri vörn Valsmanna. Gestirnir bættu við forskotið í öðrum fjórðung og unnu þann leikhluta með 26 stigum gegn 17 stigum heimamanna.
Margir héldu að leikurinn eftir hálfleik yrði nánast formsatriði fyrir gestina sem leiddu með 15 stigum í hálfleik 32-47. Íslandsmeistararnir komu hinsvegar inn í seinni hálfleikinn með krafti og söxuðu jafnt og þétt á forskot gestanna. Drungilas fór að raða niður þristum og eftir einn slíkan um miðjan fjórðunginn var staðan orðin 53-57 og sturluð stemning í Síkinu. Valsmenn náðu þó að auka aðeins við forskotið aftur en baráttugleði heimamanna hélt áfram og engin uppgjöf í boði. Staðan var 54-64 fyrir lokaátökin, bæði lið að spila ágætis varnarleik en ljóst að heimamenn voru orðnir aðeins þreyttari enda keyrt á fáum mönnum. Gestirnir byrjuðu fjórða leikhlutann gríðarlega sterkt og Montero setti þrjá þrista á fyrstu 2 mínútunum og munurinn kominn í 18 stig. Stólar bitu í skjaldarrendur og náðu að krafsa aðeins til baka en Valsmenn gerðu nóg til að landa að lokum 9 stiga sigri 75-84.
Hjá Íslandsmeisturunum var Adomas Drungilas atkvæðamestur með 20 stig og 14 fráköst en hann verður að nýta færin sín betur undir körfunni. Tóti Túrbó og Ragnar Ágústsson bættu við 19 stigum hvor og Tóti hirti að auki 14 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Hjá gestunum var Montero áberandi með 23 stig (7/13 í þristum) og Benedikt Blöndal átti góða innkomu af bekknum og skilaði 3 þristum niður.
Mynd: Orri Svavarsson sækir að Valsmönnum
Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna