spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaValsmenn laumuðu sér úr Skógarselinu með stigin

Valsmenn laumuðu sér úr Skógarselinu með stigin

ÍR-ingar fengu Íslandsmeistarana í heimsókn í fyrsta leik 9. umferðar Subway-deildarinnar í kvöld. Gestirnir hafa litið vel út það sem af er tímabils þó svo að síðasti leikur gegn Keflavík hafi farið í vaskinn. ÍR-ingar eru líklegast einnig alveg sæmilega sáttir með þau 6 stig sem liðið hefur krækt í til þessa svona miðað við meiðsli og önnur áföll sem liðið hefur mátt þola. Eiga Breiðhyltingar séns í stigin tvö gegn Íslandsmeisturunum?

Kúlan: Í Kúlunni birtast dansandi, glaðbeittir frummenn í kringum eldstæði í helli. Það er vísun í gamla heimavöll heimamanna og merkir að ÍR-ingar hirða stigin 2, í eldinum sjást lokatölurnar, 85-79.

Byrjunarlið

ÍR: Taylor Johns, Hákon, Paasoja, Collin, Raggi

Valur: Kristó, Pablo, Kári, Callum, Frank Aron

Gangur leiksins

Sóknarleikur beggja liða var býsna stirðbusalegur fyrstu mínúturnar og lítið skorað. Ozren kom inn af bekknum hjá gestunum og sýndi mönnum hvernig á að skora, setti 8 stig á innan við mínútu. Gestirnir voru með nefbroddinn á undan og leiddu 18-20 að fyrsta leikhluta loknum.

Maður hafði þá tilfinningu í byrjun annars leikhluta að það væri bara tímaspursmál hvenær gestirnir myndu síga framúr og tilfinningin reyndist vera rétt að þessu sinni. Valsmenn  náðu að koma smá flæði í gang hjá sér sóknarlega á meðan ÍR-ingar héldu áfram að fleygja múrsteinum en heimamenn voru 3-22 í þristum í hálfleik! Breiðhyltingum til happs gekk ekki allt upp hjá gestunum og í hálfleik var aðeins 11 stiga munur, 29-40.  Collin var nánast sá eini með lífsmarki sóknarlega fyrir heimamenn, var með 15 stig í hálfleik. Callum og Ozren voru með 10 hvor fyrir gestina.

Það var allt annað að sjá ÍR-liðsins í þriðja leikhluta. Á aðeins 3 mínútum og 40 sekúndum höfðu heimamenn náð 15-3 spretti og eftir þrist frá Paasoja leiddu þeir 44-43 og Gústi sá ekki annað í stöðunni en að taka leikhlé. Liðin héldust í hendur það sem eftir var leikhlutans og allt hnífjafnt fyrir lokaátökin, 57-57.

Valsmenn settu fyrstu 5 stig fjórða leikhlutans en heimamenn nörtuðu ávallt í hæla þeirra. Tvisvar minnkuðu ÍR-ingar muninn í 1 stig en brutu svo í bæði skiptin klaufalega varnarlega og Kári og Pablo nýttu vítin 4. Hákon náði að minnka muninn í 1 stig í þriðja sinn þegar rétt rúmlega mínúta var eftir af leiknum og heimamenn unnu boltann í kjölfarið, 50 sekúndur eftir og heldur betur möguleiki fyrir Breiðhyltinga. Raggi Braga er ekkert hræddur við stóru skotin en þriggja stiga skot hans vildi ekki niður að þessu sinni. Kristó kom Val í 77-80 með glæsilegt sóknarfrákaststroð í næstu sókn og ÍR-ingar þurftu þrist, 19 sekúndur voru eftir á klukkunni. Hákon tók fyrsta mögulega skotfærið en aftur vildi boltinn ekki detta. Þá tók við einhver óskiljanleg reikistefna, eitthvað þvældist fyrir dómurum leiksins en eftir dúk og disk áttu Valsmenn innkast eftir að uppkast var dæmt í baráttu um boltann eftir skot Hákons. Nokkrum Valsvítum síðar lauk leik með góðum en naumum 77-83 sigri Íslandsmeistaranna.

Menn leiksins

Kári Jónsson var bestur á vellinum í kvöld, hann setti 21 stig, gaf 3 stoðsendingar og hirti 3 fráköst. Benda má á að hann skoraði 13 af stigum sínum í lokaleikhlutanum. Kristó gerði vel varnarlega á Taylor Johns og fékk á köflum góða hjálp frá liðsfélögum sínum en Valsmenn lögðu eðlilega áherslu á að hægja á honum.

Collin var bestur heimamanna með 19 stig og 12 fráköst. Taylor Johns skilaði fínu framlagi einnig en þó ekki sama tröllaframlaginu og hann hefur gert hingað til.

Kjarninn

Ísak Wíum, þjálfari ÍR, var sæmilega brattur í viðtali eftir leik. Hann benti á að það hljóti að gefa eitthvað jákvætt til kynna að vera í hörku leik gegn Íslandsmeisturunum þar sem þriggja stiga skotnýting hans manna var aðeins 21%. Undirritaður er sammála því, ÍR-vörnin var á löngum köflum fín og skýrir að hluta til 19 tapaða bolta andstæðinganna. Enn á liðið Sigvalda inni og nánast má segja það sama um Massarelli sem átti ekki góðan leik í kvöld frekar en fyrri daginn.

Valsmenn horfa líkast til einkum til þess að hafa hirt stigin sem voru í boði í kvöld. Það fer ekkert lið auðveldlega í gegnum ÍR-liðið með Ghettóana tryllta í nýja húsinu í Skógarseli. Valsarar hafa eitt og annað til að pæla í, skoða og laga eftir þennan leik, augljósast eru allir þessir töpuðu boltar en lið vinna ekki mjög oft með næstum 5 tapaða bolta að meðaltali í leikhluta! 

Tölfræði leiks

Myndasafn (Atli Mar)

https://www.karfan.is/2022/12/isak-eftir-leik-i-skogarselinu-vorum-nu-i-bullandi-leik-vid-islandsmeistarana/
https://www.karfan.is/2022/12/agust-eftir-leik-i-breidholtinu-margt-sem-vid-getum-lagad/
Fréttir
- Auglýsing -