Það var mikið undir þegar að Hvergerðingar mættu að Hlíðarenda í kvöld. Oddaleikur og sæti í Dominos deildinni á næstu leiktíð. Valsmenn björguðu sér fyrir horn í síðasta leik með naumum sigri, en það má segja að Hamarsmenn hafi kastað þeim leik frá sér.
Heimamenn yfirspiluðu Hvergerðinga frá fyrstu mínútu í kvöld og var leikurinn aldrei spennandi. Hjá Val var Austin Bracey stigahæstur með 33 stig en Chris Woods var atkvæðamestur gestanna með 16 stig og 12 fráköst.
Gangur leiksins
Það er eiginlega ekki hægt að segja mikið um gang leiksins. Valsmenn komust strax í 9-0 og svo 21-4. Leihlutinn endaði 32-9 og þar með var leikurinn eiginlega farinn. Forysta Vals hélt áfram að stækka og þegar að flautað var til hálfleiks var staðan 60-26 Hlíðarendapiltum í vil.
Í seinni hálfleik jókst munurinn fyrst um sinn og hélst svo mikill allt til loka, síðari hálfleikur var eiginlega bara formsatriði og voru til að mynda ekki tekin nein leikhlé, svo mikill var munurinn. Lokatölur 109-62 og Valsmenn spila í úrvalsdeild að ári.
Tölfræðin lýgur ekki
Valsmenn voru einfaldlega betri á öllum sviðum í kvöld, tóku fleiri fráköst (61-38), gáfu fleiri stoðsendingar (27-15), stálu fleiri boltum (13-6) og keyrðu yfir Hamarsmenn frá fyrstu stundu.
Maður leiksins
Ég ætla að leyfa mér að tilnefna tvo leikmenn hér, þá Urald King (24 stig og 16 fráköst) og Austin Magnús Bracey (33 stig og 6 fráköst). Þessir 2 hafa verið bestu leikmenn Vals í vetur og það var engin breyting á því í kvöld. Frábær leikur hjá báðum.
Kjarninn
Valsmenn mættu tilbúnir í kvöld, ætluðu að keyra hratt á Hamarsmenn og sjá til hverju það myndi skila. Það kláraði leikinn á um það bil 6 mínútum. Hamarsmenn áttu engin svör, voru andlausir, fljótt pirraðir og létu boltann ekkert flæða í sókninni. Í svona stórum leik verður einfaldlega að mæta til leiks, það gerðu Valsarar og þeir fara verðskuldað upp í úrvalsdeild.
Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson
Myndir Davíð Eldur