spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaValsmenn einum sigurleik frá því að sópa Íslandsmeisturum Þórs í sumarfrí

Valsmenn einum sigurleik frá því að sópa Íslandsmeisturum Þórs í sumarfrí

Valur lagði Íslandsmeistara Þórs í kvöld í öðrum leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Subway deild karla. Valur því komnir með tvo sigra í seríunni og geta tryggt sér sæti í úrslitunum með sigri í þriðja leik liðanna komandi þriðjudag.

Fyrir leik

Fyrsta leik einvígis liðanna vann Valur með 5 stigum í Þorlákshöfn, 84-89, en vinna þarf þrjá leiki til þess að komast áfram í úrslitaeinvígið.

Gangur leiks

Heimamenn í Val byrja leik kvöldsins betur. Ná að vera skrefinu á undan í fyrsta leikhlutanum, þar sem þeir ná mest 8 stiga forystu. Gestirnir úr Þorlákshöfn ná þó góðu áhlaupi undir lok fjórðungsins, sem endar 24-22. Í öðrum leikhlutanum ná heimamenn aftur að vera einni til tveimur körfum á undan, en klára leikhlutann nokkuð vel og er munurinn 8 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 47-39.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var fyrrum Þórsarinn Callum Lawson með 13 stig á meðan að Glynn Watson var stigahæstur fyrir Þór með 10 stig.

Með flottu 1-9 áhlaupi nær Þór að klóra sig aftur inn í leikinn á upphafsmínútum seinni hálfleiksins, 49-48. Valsmenn ná þá aftur að setja fótinn á bensíngjöfina og bæta enn við forystu sína undir lok þriðja leikhlutans. Ellefu stiga munur fyrir lokaleikhlutann, 64-53. Í fjórða leikhlutanum gera heimamenn svo það sem þarf til að vinna leikinn. Verjast áhlaupi Íslandsmeistara Þórs ágætlega og hleypa þeim í raun aldrei inn í leikinn. Niðurstaðan 12 stiga sigur Vals, 87-75.

Atkvæðamestir

Kristófer Acox var atkvæðamestur í liði heimamanna í kvöld með 10 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Honum næstur var Jacob Dalton Calloway með 24 stig.

Fyrir gestina úr Þorlákshöfn var Glynn Watson með 19 stig, 8 fráköst og Ronaldas Rutkauskas bætti við 7 stigum og 9 fráköstum.

Hvað svo?

Þriðji leikur liðanna er á dagskrá komandi þriðjudag 26. apríl í Þorlákshöfn.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Márus Björgvin)

Karfan.is/iHandle

Fréttir
- Auglýsing -