spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaValsmenn bitu frá sér en Njarðvík tók stigin

Valsmenn bitu frá sér en Njarðvík tók stigin

Njarðvík hafði sigur á Val í Bónus-deild kvenna í kvöld eftir góða glímu í IceMar-Höllinni. Fimmti sigurleikur Njarðvíkinga í röð og jafnframt fjórði tapleikur Vals í röð. Lokatölur 77-67. 

Valskonur léku án landsliðsmiðherja síns Ástu Júlíu Grímsdóttur og munar um minna en samkvæmt fréttum verður hún frá fram að jólum vegna meiðsla. 

Jafnt var á öllum tölum í fyrri hálfleik en í þeim síðari náðu Njarðvíkingar nokkrum tökum á leiknum og leiddu allt til leiksloka. 

Emilie Hesseldal gerði heiðarlega atlögu að frákastameti tímabilsins og tók 24 fráköst en metið er í eigu Denia-Davis Stewart sem tók 28 stykki í viðureign Stjörnunnar og Keflavíkur í októbermánuði.

Dagbjört Dögg lék vel í liði Vals í kvöld með 20 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar og þá bætti Jiseelle við 20 stigum og 8 fráköstum. Dinkins var stigahæst í liði Njarðvíkinga með 27 stig og 5 stoðsendingar og aukareitis við heil 24 fráköst var Hesseldal með 16 stig. 

Með sigrinum í kvöld er Njarðvík á toppi deildarinnar ásamt Haukum með 12 stig en Haukar mæta Keflavík á morgun í toppslag. Valur sem fyrr vermir botn deildarinnar og leika næst gegn nýliðum Hamars/Þórs á heimavelli. Næst á dagskrá hjá Njarðvíkingum er útileikur gegn Þór Akureyri þann 3. desember. 

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -