Í hinum diplómatíska heimi góða fólksins væri skynsamlegast fyrir forsvarsmenn Stjörnunnar og Valsmanna að semja um jafntefli í leik kvöldins – setjast svo niður og hjálpast að við að finna Leiðina beinu og breiðu upp á toppinn fagra. En nei, körfubolti er ekki samvinnuspil, berjast þurfti um stigin tvö upp á líf og dauða í MG-höllinni í kvöld. Bæði lið með 2 sigra, 2 töp og ekkert jafntefli eftir 4 umferðir.
Kúlan: Kúlan gerir sig alveg ótrúlega spekingslega í öllu yfirbragði, svona m.v. að vera kúla, og segir: ,,Skohh….það hefur verið bölvað bras á Völsurunum…vantar besta kallinn þeirra og sonna…vantar eitthvað þarna…“. Hún meinar örugglega að Stjarnan vinnur þennan, 84-77. Besti kallinn þeirra, í huga kúlunnar, er sennilega Kani Vals sem er ekki enn mættur…
Byrjunarlið
Stjarnan: Hilmar, Gabrovsek, Turner, Hopkins, Tommi
Valur: Kristó, Hjálmar, Pablo, Pavel, Lawson
Tommi opnaði leikinn með flottum þristi og að hans fordæmi fylgdu 3 til viðbótar frá heimamönnum. Staðan var 12-2 eftir um tvær mínútur og allt var dulítið þunglamalegt hjá gestunum. Sígandi lukka er hins vegar best og hlutirnir fóru smátt og smátt að líta betur út hjá Val á meðan skotnýting heimamanna fór eðlilega eitthvað að fjarlægjast 100%. Valur nálgaðist Stjörnuna hægt og rólega og staðan var 22-20 eftir fyrsta leikhluta. Tilfinningin sagði mér að línur væru að fara að skerast, Valsmenn myndu komast yfir fljótlega og aldrei líta til baka.
Kristó jafnaði leikinn strax í byrjun annars leikhluta í óvanalega hraðri sókn Valsmanna og þeir komust yfir 24-26 skömmu síðar. Það var hins vegar bið á því að gestirnir tækju yfir leikinn eins og manni fannst stefna í. Línurnar runnu saman í eitt og liðin skiptust á að leiða með örfáum stigum fram að hálfleik en staðan var 42-46 gestunum í vil í pásunni.
Heimamenn voru 8/19 í þristum í fyrri hálfleik en gestirnir 3/8 og segir það talsvert um bæði lið. Hopkins opnaði einmitt seinni hálfleik með þristi en Valsmenn svöruðu með sniðskotum hinum megin og sigu framúr. Vörnin hjá Val var mjög góð, sérstaklega undir körfunni og Stjörnumenn voru eins og villuráfandi dvergar í landi trölla á því svæði. Þegar 6:40 voru eftir af þriðja tók Arnar leikhlé í stöðunni 45-55 en undirritaður veit ekki hvaða skilaboð hefðu bjargað kvöldinu, helst kannski að gefa út þá skipun að hitta alltaf úr þristum? Staðan versnaði svo bara í framhaldinu fyrir heimamenn, Pavel henti í sinn annan þrist þegar 5 mínútur voru eftir og setti stöðuna í 48-61. Að leikhlutanum loknum leiddu gestirnir 54-73, Stjarnan aðeins með 12 stig á móti 27 í leikhlutanum.
Stjörnumenn reyndu að blása smá stemmningu í vörnina hjá sér í upphafi fjórða leikhluta og það er alltaf góð hugmynd. Kári Jóns svaraði því með þristi og staðan 58-78 þegar 8 mínútur voru eftir. Valsmenn áttu þá ,,þettaereiginlegakomið“-mínútur og voru sjálfum sér verstir sóknarlega, settu ekki stig á töfluna í einhverjar 3 mínútur og Gabrovsek minnkaði muninn í 68-78 þegar 5 mínútur voru eftir. Lawson-Laufey var fyrstur Valsmanna að átta sig á því að leikurinn væri nú enn í gangi og smellti þristi í horninu og bætti öðrum við skömmu síðar. Þá voru 3:30 eftir, staðan 71-86 og vonin um spennandi lokamínútur nokkurn veginn úr sögunni. Arnar tók leikhlé en hefði þurft einhver galdrastykki til að snúa leiknum sínum mönnum í vil, að lokum 79-91 góður sigur Valsmanna.
Menn leiksins
Kristófer var án vafa maður leiksins. Hann setti 25 stig og tók 10 fráköst. Varnarlega var hann líka rosalegur eins og svo oft áður. Callum átti sinn besta leik með Val, hitti vel, skoraði 24 stig, tók 7 fráköst og setti mikilvæga þrista til að klára leikinn.
Kjarninn
Stjörnumenn voru án Hlyns Bærings í þessum leik sem glímir við einhver eymsli í nára. Það er e.t.v. alveg sérstaklega vont að vera án hans gegn Valsliðinu en þó er auðvitað fleira sem gerði það að verkum að Garðbæingar fengu ekki stigin í kvöld. Í stuttu spjalli við Hlyn eftir leik urðum við sammála um að varnarleikurinn er ekki nógu góður hjá liðinu. Stjörnumenn töpuðu einnig frákastabaráttunni 38-46 í kvöld og hafa þeir gjarnan orðið undir í þeirri baráttu það sem af er vetri.
Valsmenn sóttu góðan sigur í Garðabæinn að þessu sinni og batamerki eru á spilamennsku liðsins. Vörnin er hörkugóð undir körfunni en liðið vill vafalaust ná á sama tíma að loka aðeins betur á skyttur andstæðinganna. Sóknin var svo dulítið í ökkla eða eyra, liðið náði ítrekað að koma sér í öruggt sniðskot undir körfunni og það hlýtur að kallast fyrirmyndar sóknarleikur. Á köflum fengu áhorfendur hins vegar að sjá ökklaútgáfuna þar sem boltinn stoppaði svolítið fyrir utan og lítið að frétta. Spennandi er að sjá hvernig þetta þróast og hvernig bandarískur leikmaður muni passa í þetta púsl…ef í það fer þar að segja. Undirritaður ætlar í það minnsta að leyfa sér að vera svolítið spenntur yfir því þó Pavel hafi bent réttilega á í spjalli eftir leik að liðið í heild þarf að bæta sinn leik burtséð frá einhverjum mögulegum viðbótum í leikmannahópinn.
Myndasafn (væntanlegt)